149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður fullyrt þetta? Við höfum aldrei prófað að bjóða út aflaheimildir. (Gripið fram í.) Það er hins vegar alkunna í útboði að settar eru reglur. Við erum núna með 12% hámark á samþjöppun, til að reyna að koma í veg fyrir samþjöppun. Þegar við setjum út reglur fyrir útboðið getum við alveg eins sagt að enginn megi eiga meira en 12%. Við getum alveg sett reglur og það er það sem er gert þegar sett eru niður útboð, það eru settar reglur sem þjóna hagsmunum þess sem býður út vöruna eða verkið. Þannig er það.

Atvinnuveganefnd þarf að fara yfir þá liði sem eru frádráttarbærir og hæstv. ráðherra kynnti á glærum í gær, m.a. fyrir stjórnarandstöðunni. Það þarf að fara yfir þá liði og hvort það er réttmætt, (Forseti hringir.) hvernig þeim er stýrt og hvernig hægt er að hafa áhrif á bæði breytilegan kostnað og hvort það sé réttlætanlegt að taka allan þennan fasta kostnað og draga hann frá. (Forseti hringir.) Atvinnuveganefnd þarf að fara yfir þetta og reyna að rýna í það hver er raunveruleg auðlindarenta, en tölurnar um hagnað fyrirtækja í sjávarútvegi undanfarin ár liggja fyrir og (Forseti hringir.) það er ekki réttlátt að þjóðin fái svona lítið af þessari meginauðlind. Við eigum að bjóða hluta út þótt ekki væri nema til að fá viðmiðunarverð.