149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:31]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er svolítið skrýtið að við séum bara þrjú í salnum en gott og vel, við látum vaða engu að síður. Það er vissulega ánægjulegt að sjá að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé bæði kominn í salinn og hafi líka haft í sér kraft til að flytja eigið frumvarp til lækkunar veiðigjalda að þessu sinni í stað þess að reyna að lauma því inn í gegnum atvinnuveganefnd og sniðganga þannig umræðu í ríkisstjórnarflokkunum.

Dveljum samt ekki við það. Það var nefnilega ágætt í framsögu hæstv. ráðherra að hann ræddi mikið um bróðerni og friðsemd. Mér finnst það mjög jákvætt. Málefnaleg umræða um frumvarp af þessu tagi er mikilvæg og það er um að gera að benda á kosti og ókosti þess ásamt því að reyna að finna einhverja möguleika á að bæta það. Ég vona að það verði tekið mark á þeirri gagnrýni sem ég kem til með að leggja fram þar sem gagnrýnin er að sjálfsögðu lögð fram í mesta bróðerni og mestu vinsemd. Ég segi þetta eftir að hafa fengið tugi símhringinga og tölvupósta undanfarna tvo daga frá fólki sem er mjög ósátt við þetta frumvarp. Það er nefnilega alls ekki svo að þetta sé allt saman klippt og skorið. Til að greina þetta held ég að við verðum að skoða það í tvennu ljósi. Í fyrsta lagi má skoða þetta sem tilraun til að laga ágalla núverandi fyrirkomulags út frá þeim kolröngu forsendum, en forsendum engu að síður, að núverandi fyrirkomulag sé í grundvallaratriðum gott. Í öðru lagi má skoða þetta veiðigjaldafrumvarp sem tilraun til að komast hjá því að laga galla núverandi fyrirkomulags og þá er ég að tala um undirliggjandi kerfislæga galla sem er viðhaldið með frumvarpinu.

Ég ætla að taka þetta jákvæða fyrst. Það eru nokkrar ágætar breytingar hér. Álagningin er færð nær í tíma, stjórnsýslan er gerð einfaldari, það er ýmislegt sem er tekið á sem er mjög fínt. Þær stjórnsýslubreytingar sem eru lagðar til munu líklega bæta hag margra fyrirtækja. Bara það að færa þetta nær í tíma mun minnka þá óvissu sem fyrirtæki þurfa að ganga í gegnum yfir tveggja ára tímabil meðan beðið er eftir því að veiðigjöld verði lögð á. Það rýmkar þá fjárstreymið og ýmislegt þannig.

Það er að vísu svolítið skrýtið við nýja ferlið að verið er að blanda hæstv. ráðherra inn í ákvarðanatöku í hvert einasta skipti sem þarf að rukka veiðigjöldin. Ferlið er að fyrirtækin skila inn skattskýrslu með upplýsingum um sínar veiðar, Fiskistofa staðfestir þær tölur eða hrekur eftir atvikum og ríkisskattstjóri ákvarðar þá hvað hver skuli borga. Gott og vel. Um flest gjöld af þessu tagi gildir náttúrlega, ef við erum að tala t.d. um skatta, útvarpsgjald eða hvað það er, að þegar gjald hefur verið ákvarðað er það hreinlega innheimt. En, nei, hér þarf einhverra hluta vegna ráðherra að koma sérstaklega inn og senda bréf til að hrinda þessu ferli í framkvæmd hjá annarri stofnun. Úr því að reikniaðferðin er ákveðin af Alþingi og reikningarnir framkvæmdir af ríkisskattstjóra er engin sérstök ástæða til að ráðherra komi frekar inn í þetta. Það er bara óþarfi. Það væri hægt að kippa þeim hluta ferlisins út.

Þá er reikniaðferðin líka sérstök, einkum frádráttarliðirnir. Það að draga frá allar fjárfestingar opnar á að fjárfest sé stórlega rétt fyrir áramót og selt að nýju eftir áramót. Auðvitað er eðlilegast að reyna að skoða þetta út frá nettóstöðunni frekar en að taka heildarstöðuna. Þá má segja að þetta sé jafnvel tvöfaldur afsláttur þar sem það er afsláttur af fjárfestingum í upphafi og afskriftum í lokin. Þessi handvömm verður vonandi leiðrétt í meðferð atvinnuveganefndar.

Svo eru vondu breytingarnar, þær eru nokkrar. Fyrst og fremst er verið að ákveða lægra veiðigjald fyrir árið 2019 en eru rök fyrir. Ég ætla ekki að fara yfir hversu mikil lækkun er á hverri einustu tegund en það er lækkun á því sem næst öllum þeirra, þar með talin 40% lækkun á þorski. Eins og er rukka Færeyingar 70% hærra gjald en Íslendingar gera í dag. Það verður þeim mun meira 2019 gangi þetta svona í gegn.

Þá fer maður að velta fyrir sér hvers vegna hagfræðin á Íslandi sé svo gjörólík hagfræðinni í Færeyjum að nákvæmlega sami fiskur þurfi að vera þrefalt ódýrari á Íslandi en þar. Það mætti svo sem tala um að eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna sé kannski minna, en það reyndar virðist ekki vera tilfellið í ljósi gríðarlega stórra arðgreiðslna sem hafa komið frá þeim stærstu. Er kannski styttra á miðin? Nei, reyndar er lengra á miðin fyrir Færeyinga. Í rauninni virðist ekki vera neinn liður. Kannski getur hæstv. ráðherra bent mér á einhvern lið sem gerir hagfræðina í grundvallaratriðum öðruvísi á Íslandi en í Færeyjum.

Engu að síður er þetta það sem er lagt upp með, þ.e. gríðarlega stór lækkun á veiðigjöldum í þessu frumvarpi, og ekki hafa verið lögð fram nein rök fyrir henni — nema að vísu að núna hafi verið verra árferði en fyrra. Þá hugsar maður: Ókei, hvað þá um þetta stöplarit sem hefur verið sýnt þar sem það að negla niður 33% hlutdeildartölu, eins og er gert í þessu frumvarpi, á að slá á þessar sveiflur? Annaðhvort er þessi lækkun til að búa til enn eina sveifluna eða að þetta kerfi kemur ekki til með að laga neinar sveiflur yfir höfuð. Hvort tveggja getur ekki verið satt samtímis. Það er svolítið lykilatriði í umfjöllun um veiðigjöldin sjálf að þetta eru að sjálfsögðu nákvæmlega sömu tölur og við sáum í vor að mestu leyti, þetta er einhvers konar gegnumgangandi tilraun til að lækka veiðigjöld án þess að það hafi verið rökstutt á neinum grundvelli sem er raunverulega einhver fótur fyrir.

Það er yfirferðin ef við göngum út frá því að núverandi kerfi sé gott, en eins og ég sagði er það það ekki. Það er fullt af göllum við núverandi fyrirkomulag, t.d. það að ganga út frá því að ríkið, eða Alþingi eftir atvikum, eigi að ákveða hvert veiðigjaldið sé. Reyndar er áhugavert hversu margir hafa talað hér um að þetta sé markaðsákveðið gjald þrátt fyrir að í frumvarpinu sé bókstaflega tafla sem ákveður hvernig þetta eigi að vera fyrir árið 2019. Það hljómar eins pólitískt og hver önnur ákvörðun og ekki bara það heldur vegna þess að þetta er fyrsta árið, og allir reikningar í kjölfarið koma að sjálfsögðu til með að byggjast á því hvað verður gert árið 2019, er þetta að sjálfsögðu ákveðið strik í sandinn til að tryggja að veiðigjöldin verði lág til frambúðar.

Það er tafla í frumvarpinu um 40% lækkun á veiðigjaldi þorsks. Það er hreinlega tilfellið. Það er ekki hægt að fullyrða að það sé markaðsgjald, þ.e. að markaðurinn ákveði gjaldið, ef þessi tafla er til staðar. Eina leiðin til að láta markaðinn ákveða gjaldið er hreinlega að fjarlægja töfluna og búa til einhvern markaðsmekanisma þar sem markaðurinn er bókstaflega látinn ákveða gjaldið. Það er mjög eðlilegt. Hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvörum við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur að þetta snerist ekki um það hvort það væru 102 eða 103 kr. á kílóið, eins og það sé einhvern veginn hægt að taka alla umræðuna um krónutöluupphæðina út fyrir sviga. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, þetta snýst ekki um 102 eða 103 kr. á kílóið, þetta er um hvort þetta séu 22 kr. eða 13 kr. á kílóið.

Gott og vel, ef við skoðum verðið sem sést í kvótabraski sem hefur verið eftir tegundum og margföldum þær tölur með magntölunum sem hafa verið að veiðast og leggjum það allt saman saman, sem er reyndar sama reikniaðferð og er lögð til í þessu frumvarpi til að ákveða veiðigjöld, virðist auðlindin vera samtals um 1.000 milljarða kr. virði heilt yfir, þ.e. yfir margra ára tímabil. Inni í þessari samtölu er bæði þegar verið er að selja kvóta en líka þegar verið er að leigja og auðvitað er ekki allur kvótinn til sölu að jafnaði. Íslenska ríkið tekur til sín u.þ.b. 0,8% af þessari tölu samkvæmt frumvarpinu miðað við næsta ár ef við gefum okkur að þessar veiðigjaldstölur séu notaðar og þá kemur þessi spurning: Hversu hátt hlutfall væri eðlilegt?

Sumir hafa lagt til að þetta eigi að vera a.m.k. 50%. Það er kannski mjög eðlilegt að þjóðin fái a.m.k. 50% af auðlindarentunni. Svo koma spurningar um hvernig eigi að reikna hana út. Það er svo sem hagfræðilegt viðfangsefni sem hefur verið leyst töluvert lengi og ætti ekki að þurfa að vera til umræðu í hvert einasta skipti sem einhver ber það upp.

Höfum í huga að samkvæmt gríðarlega nákvæmum útreikningum hæstv. ráðherra má ekki rukka, bara alls ekki, meira en 13,8 kr. á kílóið fyrir þorskárið 2019 þrátt fyrir að þeir aðilar sem leigja í dag til sín kvóta séu að borga um 110 kr. fyrir kílóið á markaði og borgi að auki veiðigjöldin. Það segir okkur að til eru aðilar sem fá 110 kr. fyrir hvert kíló sem annað fólk vinnur alla vinnuna í kringum. Þetta er ekkert annað en bíræfin rentusækni, vel þekkt fyrirbæri í hagfræði um þá sem sitja á auðlind eins og þeir eigi hana. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir nota bene að þeir eigi hana ekki, en þeir sitja á henni eins og þeir eigi hana, stunda sitt brask með hana og njóta góðs af því að hafa fengið þessa auðlind, með hvaða hætti sem þeir svo sem fengu hana.

Jafnframt er hægt að segja að rétt verð fyrir kílóið hljóti þá að vera í það minnsta 132 kr. miðað við veiðigjöld dagsins í dag sem er öllu nær því verði sem færeyska ríkið hefur tekið til sín.

Í grundvallaratriðum er spurningin um rétt veiðigjald svona einföld: Hver á að fá þennan pening? Á það að vera íslenskur almenningur í gegnum ríkissjóð, í gegnum sameiginlega sjóði landsmanna, eða eiga það að vera þeir sem hafa með einum eða öðrum hætti fengið afnotarétt af þessum kvóta og nýta hann sjálfum sér til framdráttar?

Ef við værum með einhvers konar eðlilegt fyrirkomulag á þessu myndi íslenska þjóðin fyrst og fremst og öðrum fremur njóta góðs af því að vera með rétt raunverð frekar en að það skili sér bara í stórkostlegum hagnaði örfárra fyrirtækja. Svo það sé sagt er ég alls ekki mótfallinn því að fyrirtæki græði og græði þess vegna mjög vel. Það er bara mjög fínt að fyrirtæki græði. En það verður að vera gert á sanngirnisgrundvelli og undir eðlilegum forsendum. Forsendur þessa kerfis eins og það er í dag eru ekki sanngjarnar og ekki til þess fallnar að stuðla að góðu og réttlátu samfélagi. Engin nýliðun getur í rauninni átt sér stað nema fólk sé með þeim mun dýpri vasa fyrir eða þá að einhverjir eru svo almennilegir að lána gegn engu gjaldi til að fólk komist af stað. Jú, jú, við getum svo sem talað um þessi 5,3% en raunveruleikinn er að þetta færir bilið aðeins ofar en gerir engum auðveldara að stökkva úr félagslega kerfinu upp í stærra kerfið.

Í staðinn fyrir að gera þetta rétt og fara markaðsleiðina, í staðinn fyrir að gera það sem maður hefði haldið að markaðssinnaður flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn er, eða segist vera, gerði, að nota frjálsa markaði, er verið að taka inn 33% hlutfallstölu sem er auk þess reiknuð út frá liðum sem virðast sérstaklega til þess fallnir að auðvelda lóðrétt samþættum fyrirtækjum að hliðra til kostnaðarliðum hjá sér. Sem dæmi má taka eitt ágætt fyrirtæki sem í dag rekur alla landvinnslu sína vísvitandi í bullandi tapi með tilfærslum á arðsemi milli rekstrareininga vegna þess að reikniformúlan gerir það að verkum að þetta tiltekna fyrirkomulag lágmarkar veiðigjöldin, bara eins og þau eru reiknuð í dag. Ef þetta frumvarp gengur í gegn mun eflaust allt braggast í landvinnslu hjá fyrirtækinu en skipin lenda allt í einu í miklum rekstrarerfiðleikum. Það þarf ekki mikla excel-spekinga til að finna tilfærslur í svona kerfi til að lágmarka veiðigjöld en hámarka hagnað þrátt fyrir það. Þær aðferðir, sem er vissulega verið að taka á að hluta til í þessu frumvarpi, munu ekki koma í veg fyrir það að öllu leyti. Þetta er alveg sérlega opið fyrir því að fyrirtæki komi sér saman um að hnika til tölum til að keyra niður sameiginlegan stofn veiðigjaldsins.

Þetta er í rauninni ekkert annað en árás á (Forseti hringir.) tekjustreymi ríkissjóðs sem má vænta vegna þess að það er nú þegar til staðar.

Nú er ég fallinn á tíma þannig að ég þarf að koma í a.m.k. eina ræðu í viðbót en læt þetta duga að sinni.