149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru spurningar sem maður hefur heyrt áður hér í dag og hefur þeim verið svarað hér í dag en ég skal alveg svara þeim með gleði.

Það má benda á að kerfið sem Færeyingar hafa tekið upp er enn þá á tilraunastigi. Þau eru enn að þróa þetta, enn að reyna að læra hvernig sé best að haga þessum hlutum. Að sjálfsögðu er ekki — (PállM: Mest af okkur.) Já, já, það má læra af ýmsu og læra á ýmsa vegu. En auðvitað á maður að líta til þess þegar hlutir eru vel gerðir. Allir sem eru með það markmið að reyna að hámarka arðsemi þjóðarinnar af auðlind sjá að færeyska leiðin virkar töluvert betur en íslenska leiðin í augnablikinu.

Nú nefnir hæstv. ráðherra að verið sé að skemma miðin í Færeyjum en við verðum að athuga að ákvörðun um heildarveiðimagn er tekin af hæstv. ráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnun. Það er það sem ákveður hvort miðin séu lögð í rúst, ekki það með hvaða kerfi auðlindinni er deilt niður, hvernig heildarveiðimagninu er deilt niður á þá sem vilja veiða. Það skiptir ekki máli hvort það er Jón eða Gunnar sem veiðir upp á það að gera hvort umhverfið sé eyðilagt, það skiptir bara máli hversu mikið er veitt þegar þeir eru allir saman taldir.

Hvað varðar uppboðshönnun get ég svo sem ekki farið langt út í það á 30 sekúndum en það eru til hundruð tegunda uppboðskerfa sem er búið að þróa í gegnum tíðina til að mæta mismunandi tegundum markmiða hjá þeim sem halda uppboðin. Ekkert þeirra gengur út frá því að búa til einhverjar sérstakar reglur um niðurhólfun. Það er alveg hægt að hólfa niður, alveg hægt að fara út í slíkar æfingar, en þess gerist ekki þörf. Heil fræðigrein fjallar um það hvernig maður hannar uppboð til að ná þeim markmiðum sem maður hefur. Af hverju getum við ekki horft fram hjá því að vera alltaf með þetta enska uppboðskerfi í hausnum (Forseti hringir.) og farið frekar að skoða fræðin eins og eðlilegt er?