149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég talaði kannski ekki nógu skýrt þegar ég sagði að ég væri í grunninn mjög sáttur við þá hugmynd að færa þetta yfir til ríkisskattstjóra. Það er alveg rétt að þetta mun að mörgu leyti koma í veg fyrir að það verði brotið gegn lögum. Eins og ég sagði samt er vandamálið ekki bara það að brotið sé gegn lögum heldur að það sé hægt að hliðra hlutum til alveg ótal mikið á fullkomlega löglegan hátt með þeim afleiðingum að veiðigjöldin verði svo til engin.

Þetta er raunverulega hættan sem er til staðar vegna þess að það er ekki verið að greina á milli mismunandi tegunda fyrirtækja og þetta 10% álag á uppsjávarfiskinn er ekki neitt. Þetta er álag sem skiptir máli fyrir þessi fyrirtæki (Gripið fram í.) en þetta er ekki það sem kemur til með að hafa úrslitaáhrif á það hvort þetta kerfi gangi upp.

Ef við ætlum raunverulega að sníða þetta vel þurfum við að huga að því að það eru nokkrar mismunandi stéttir fiskvinnslufyrirtækja á Íslandi. Sum þeirra eru mjög lítil, þeim þarf að hjálpa, þau eru ekki í góðum rekstraraðstæðum, (Forseti hringir.) en það eru nokkur risastór sem skila milljörðum í arð á ári, bara gott hjá þeim, en höfum góðar reglur um starfsemi þeirra.