149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:01]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einkum tvennt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í varðandi þetta frumvarp. Fyrra atriðið snýr að markmiði laganna eins og kemur fram í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir að tryggja eigi þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í fiskveiðiauðlindinni, hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Það er orðið „afkoma“ greinarinnar sem að mínu mati er lykilatriði. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er hann sammála því að rétt sé að líta til afkomu greinarinnar við ákvörðun á veiðigjaldi? Ef hann er sammála því, er hann þá ekki líka sammála því að veiðigjaldið geti sveiflast í takt við breytingu á afkomu greinarinnar? Veiðigjaldið er hærra ef afkoman er góð, veiðigjaldið verður lægra ef afkoman yrði léleg. Ég væri til í að heyra aðeins um þetta.

Hitt atriðið snýr að því þegar við erum að ræða um ávinning íslensku þjóðarinnar af fiskveiðum við Íslandsstrendur. Til hvers væri sanngjarnt að líta í þeim efnum? Er sanngjarnt að líta eingöngu til veiðigjalda, þeirrar krónutölu sem þar er innheimt, er það sanngjarnt, eða er ekki rétt að við höfum líka í huga aðra skatta sem útgerðin og sjávarútvegurinn greiðir, til að mynda fyrirtækjaskatt, sem er álíka há fjárhæð og veiðigjald? Ég gæti líka nefnt tryggingagjald sem er sambærileg fjárhæð eða önnur gjöld sem útgerðin leggur í sameiginlega sjóði, eins og aflagjald, stimpilgjald og kolefnisgjald. Þurfum við ekki að horfa á þetta í heild sinni?

Þegar við tökum saman veiðigjald og fyrirtækjaskattinn er skattlagning ríkisins á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja yfir (Forseti hringir.) 50%.