149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg spurning með svona markmið. Það er hægt að tilgreina hvaða markmið sem er í 1. gr. lagafrumvarps, en það breytir því kannski ekki að ef tölurnar segja síðan eitthvað annað næst markmiðið kannski ekki eins og því er lýst. Það er kannski alltaf kjarni umræðunnar, annars vegar hvort fólk sé sammála um markmiðið og hins vegar hvort markmiðinu sé náð. Ég er bara ekki sannfærður um að markmiðinu sé náð.

Ef við værum að tala hér um að vera með brennisteinsnámur eins og við vorum með á 19. öld og hvort ættu að vera auðlindagjöld fyrir notkun á þeim brennisteini myndum við að sjálfsögðu ákveða hvaða gjald við vildum fá fyrir tonnið af brennisteini og þar með væri það útrætt og þau fyrirtæki sem gætu nýtt það myndu gera það og önnur ekki. En að sjálfsögðu er sjávarútvegur undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, næststærsta atvinnugreinin, þannig að við gerum aðeins öðruvísi vegna þess að þetta skiptir okkur svo miklu máli. Þá tökum við meira tillit til afkomu greinarinnar vegna þess að þetta er svo sérstakt. Þá geta veiðigjöld sveiflast.

Ef reiknireglurnar eru beinlínis hannaðar með það fyrir augum að þær sveiflist ekki er rosalega skrýtið ef það þarf að endurskilgreina veiðigjöldin til að vera 40% lægri til að reyna, ja, ég veit ekki hvað. Það hefur aldrei verið útskýrt.

Hver ávinningurinn er? Jú, hann er alveg töluverður. En höfum í huga að allir þessir skattar, stimpilgjöld og allt þetta sem hv. þingmaður nefnir eru jafn mikið lagðir á ferðaþjónustu, tæknifyrirtæki, landbúnað og álverin. (Gripið fram í.) Við erum að tala um afnotagjöld af auðlind. Ég tók eftir því í andsvörum hv. þingmanns við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur áðan að hann virtist eiga í vandræðum með að átta sig á því hvort veiðigjöld væru gjald eða skattur. Á meðan (Forseti hringir.) það er svona grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanni er rosalega erfitt að tala um þetta mál á skynsemisnótum.