149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi hér um kosti og galla frumvarpsins og fór málefnalega í gegnum það. Ég staldra engu að síður við nokkra þætti sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni sem snúa m.a. að þeirri sýn hennar að fiskveiðistjórnarkerfið þurfi að vera sjálfbært og að við nýtum sameign þjóðarinnar með sem sjálfbærustum hætti.

Ég spyr þess vegna hvort núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gefi eitthvert tilefni til þess að ætla að við nýtum ekki fiskveiðiauðlindina með sjálfbærum hætti. Er eitthvað í fiskveiðistjórninni í dag sem gefur hv. þingmanni tilefni til að álykta að Íslendingar hafi ekki nýtt og séu ekki að nýta fiskveiðiauðlindina með sjálfbærum hætti?

Í annan stað er rætt um að þessi gjaldtaka eins og henni er háttað, bæði í núverandi regluverki og frumvarpinu, snúist ekki um raunverulegt auðlindagjald. Í greinargerðinni með frumvarpinu er talað um að þörf sé á að taka umræðu um það hvort við getum einhvern veginn hagað gjaldtökunni, ekki bara af sjávarútvegi heldur líka öðrum greinum, með þeim hætti að sett verði eitthvert gjald sem varðar beinlínis nýtingu auðlindarinnar og í annan stað einhver skattlagning á afkomu af þeirri nýtingu sem þar undir heyrir. Mér þætti vænt um að heyra hjá hv. þingmanni hvort þær hugmyndir sem hennar stjórnmálaafl berst fyrir geti með einhverjum hætti gengið eftir.