149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra aftur andsvarið og árétta það sem ég sagði áðan, mér finnst líka mikilvægt að ekki sé gengið út frá því að þeir sem vildu sjá breytingar á veiðigjaldamálum og hvernig gjaldtökunni fyrir auðlindina væri háttað væru endilega að gera tilraun til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekkert samasemmerki þar á milli, án þess að ég útiloki hér að einhverjir vilji sjá breytingar.

Hvernig vil ég að löggjafinn komi að málinu? Það er ekkert sérstaklega flókið. Það er löggjafans að ákveða hvort við förum þá leið að setja hluta aflans á markað til að fá viðmiðunarverðið. Hversu stórt hlutfall? Löggjafans að ákveða. Hvernig við nýtum það sem viðmiðunarverð? Líka löggjafans að ákveða. Förum við alla leið? Þarna kemur löggjafinn inn. Munurinn er sá að með því er bæði löggjafinn að stíga þetta skref en jafnframt erum við að láta markaðnum eftir að ákveða verðið, svo langt sem við viljum.

Það er líka hægt að fara þá leið að segja: Við skulum bara láta uppgjörið ákveða, nota það sem viðmiðunarverð í tilteknum hluta, af því að við viljum taka þetta í skrefum. Það er (Forseti hringir.) löggjafans að ákveða en aðferðafræðin er önnur og hún skilar gegnsærri og sanngjarnari verðlagningu.