149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún veitir mér eiginlega kærkomið tækifæri til að leiðrétta ef misskilningur hefur orðið. Nei, það er ekki hugmyndin að nota það gjald sem fæst í upphafi síðar sem grunn að veiðigjaldi, þ.e. að ef veiðigjald fellur niður sé þetta í staðinn. Útgerðarfyrirtæki sem taka þátt í uppboði greiða ákveðið gjald fyrir að fá til sín kvóta. Það er gjaldið ef maður vill orða það sem svo sem viðkomandi útgerðarfyrirtæki greiðir til íslensku þjóðarinnar fyrir afnotin. Þetta er annað kerfi og önnur nálgun.

Eins og ég talaði um áðan í samtölum við hæstv. ráðherra er hægt að taka það í skrefum. Það er væntanlega of bratt að taka í einu lagi og ekki endilega einu sinni ásættanlega leiðin að fara alla leið. Þetta getur verið hlutaskipt en a.m.k. er þetta leið til að finna hið rétta viðmiðunarverð.