149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka góða spurningu. Ég myndi ætla að þeir hv. þingmenn hér inni sem á annað borð trúa á markaðslausnir í einhverjum greinum þekktu að það er alþekkt í útboðum að sett eru skilyrði af hálfu bjóðenda. Það er hægt að festa þetta á ýmsa vegu og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er hætta á að það dragi úr hámörkun virðisins en slíkt yrði gert vegna þess að við teljum aðra hluti verðmæta líka, þ.e. að tryggja einhverja dreifingu og koma í veg fyrir frekari samþjöppun.

Ég hef ekki áhyggjur af því að fólki sem kann til verka þarna takist ekki að skrifa slíka útboðslýsingu fyrir hönd eigenda auðlegðarinnar en útfærsluvinnan er eftir. Ég þekki í mörgum öðrum greinum hvernig slík skilyrði eru sett en hef reyndar ekki unnið þar sem jafn mikið er undir og að þessu sinni. (Forseti hringir.) Það getur samt engum dulist sem hefur fylgst með fréttaflutningi síðustu vikur að samþjöppun er töluverð í sjávarútveginum og meiri en mörgum þykir góð. Það er ekki eins og núverandi kerfi komi í veg fyrir hana.