149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ákallaði þá þingmenn sem tryðu á markaðslausnina rétt áðan. Ég er ekki viss um að ég hafi verið í því mengi hjá hv. þingmanni. [Hlátur í þingsal.] En mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á málflutning hv. þingmanns, margt þar sem mér finnst þess virði að setjast yfir og ræða og velta fyrir mér.

Þess vegna kannski ekki síst langar mig að heyra nánar um ákveðna útfærslu sem hv. þingmaður hefur talað um. Hún hefur t.d. talað um uppboð á ákveðnum hluta kvótans. Hvað þá með þann hluta kvótans sem er ekki boðinn út? Á að láta verðið á aflaheimildunum í uppboðinu ráða veiðigjaldinu þar eða verðum við að vera með eitthvert kerfi um veiðigjald á þeim hluta sem ekki er boðinn út í það og það skiptið? Erum við þá að leggja til kerfið sem við erum með núna? Er það þá ekki ágætiskerfi? Nær það ekki ágætlega því markmiði sem hv. þingmaður vitnaði í að hún hefði sjálf lagt til í minnisblaði með nefndinni um gjaldtöku í sjávarútvegi, að gjaldtakan endurspeglaði arðsemi nýtingar á hverjum tíma?

Hv. þingmaður fór í samtali við hv. þm. Pál Magnússon ágætlega yfir það hvernig girðingar þyrftu að vera á svona. Ég er ekki jafn trúaður á markaðinn í jafn þjóðhagslega hagkvæmu máli og hv. þingmaður. Markaðurinn er tæki þar sem þeir sterkustu ráða, þeir sem efnaðastir eru, eins og við höfum bara séð dæmi um í Færeyjum. Fyrir fyrirtæki sem er með kvóta en býður í segjum 1.000 tonn í viðbót er mun auðveldara og ódýrara að sækja aukalega 1.000 tonn en fyrir einhvern að byrja frá grunni á að sækja um þau 1.000 tonn.

Ég væri til í að heyra hugleiðingar hv. þingmanns um hvernig hún hyggst leysa þetta eftir markaðslausnunum.