149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka aftur, frú forseti. Það er gott að við hv. þingmaður eigum þetta samtal vegna þess að hér erum við að misskilja hvort annað. Útboðið í litlum skrefum myndar viðmiðunarverðið sem síðan er beitt fyrir allan kvótann. (KÓP: Það er það sem ég spurði um í fyrra andsvari.) Ég misskildi spurninguna, ég hélt að hv. þingmaður væri að leggja til að restin færi eftir núgildandi lögum með þessum útreikningi á föstum og breytilegum kostnaði sem guð einn veit hvernig er fenginn.

Hin spurningin varðaði aftur samþjöppunina. Við erum sammála, þetta er bara vandamál. Þetta er áskorun. Ég veit ekki hvort við eigum eftir að tapa einn daginn þessari tilraun til að halda fleiri fyrirtækjum inni, þessum smærri. Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns, ef ég skil hann rétt, að núverandi kerfi sé betur til þess fallið en þær hugmyndir sem við erum með uppi. Ég held meira að segja að við getum betur stýrt ferðinni með því kerfi sem ég hef talað fyrir en núverandi. Ég er ekki sammála (Forseti hringir.) því að núverandi kerfi sé ekki gott en þegar við berum saman tvö kerfi verð ég einfaldlega að fá leyfi til að segja að það hefur ekki komið í veg fyrir samþjöppun.