149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:38]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til breytinga á lögum um álagningu veiðigjalda, frumvarp sem ég fagna mjög og styð. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og nauðsynlegt að við breytum því fyrirkomulagi sem gilt hefur um álagningu og ákvörðun veiðigjalda. Í umræðunni hér í dag hefur komið vel fram stuðningur við það sjónarmið sem ég heyri að við deilum því að núverandi fyrirkomulag er ófullkomið og raunverulega er ákaflega óheppilegt hvernig það nær ekki að fylgja eftir afkomu og sveiflum í veiðum og afkomu veiða og starfsemi sjávarútvegs. Það fyrirkomulag sem við höfum haft bítur okkur sannarlega á þessu ári.

Við erum að ræða um atvinnuveg sem býr við hvikult rekstrarumhverfi, býr við það að aðstæður hans eru síbreytilegar. Fyrst og fremst býr hann við það að hann er náttúrunýtingaratvinnuvegur og náttúran rammar inn starfsskilyrði hans að langstærstu leyti. Ég vil samt frekar fara með umræðuna um þetta ágæta frumvarp yfir á önnur svið sem minna hafa verið rædd hér í þessu sambandi, einfaldlega hvað þessi gjaldtaka þýðir og hvernig hún hittir fyrir byggðir þessa lands.

Þannig árar nú í íslenskum sjávarútvegi að framlag hefur dregist saman. Þeir sem greiða veiðigjöldin í dag greiða af allt annarri afkomu en er nú um stundir. Það hefur virkilega bitið og verið þungur baggi fyrir margar útgerðir að ráða við að greiða þau veiðigjöld sem voru lögð á fyrir þetta ár. Þess vegna beini ég því til hv. atvinnuveganefndar þegar hún fer að fjalla um þetta mál að meta þá stöðu og þau gjöld sem nú er verið að greiða, fjárhæð þeirra og hvernig þau fara með afkomu útgerða og byggðarlaga. Þetta er byggðaskattur. Yfir 80% af veiðileyfagjöldunum koma af landsbyggðinni. Þau hitta eðlilega misjafnlega fyrir þau byggðarlög þar sem útgerðin er. Í Norðvesturkjördæmi, því kjördæmi sem ég starfa fyrir, þýddi þessi sveifla í álagningu veiðigjalda núna 130–140% hækkun samkvæmt greiningu Byggðastofnunar. Það er gríðarlega mikil sveifla í skattlagningu ef við tölum um þetta sem skatt.

Óbreytt kerfi getur þar af leiðandi virkað sem hin kalda hönd dauðans og skapað forsendur fyrir allt annarri þróun en við höfum t.d. í þessum sal orðið sammála um að ætti að verða og væri æskileg. Það þýðir einfaldlega að í því ágæta kjördæmi hefur orðið gríðarleg fækkun útgerða á þessu ári, einfaldlega vegna þess að eigendur útgerðanna hafa ekki ráðið við að greiða þessi gjöld. Það er hin ískalda staðreynd.

Ef við mælum þetta út frá því hvar atvinnutekjur fólks skapast eru heilt yfir landið 16–17% atvinnutekna upprunnar í sjávarútvegi, fiskveiðum og vinnslu. Þetta hlutfall er að sönnu mun hærra í þeim byggðarlögum þar sem útgerð er hvað stærst hlutfall af atvinnulífi hvers svæðis. Ég get nefnt Snæfellsnes, þar eru þetta um 40% af atvinnutekjum svæðisins. Skattlagning með þessum hætti og fjárhæð þessara gjalda hefur gríðarleg áhrif inn í þessi byggðarlög.

Við getum líka leikið okkur við að reikna þetta út frá skatti á hvern íbúa þessara byggðarlaga. Í sömu úttekt og ég vísa til kemur t.d. fram að þetta eru um 140.000 kr. á íbúa í hinum ágæta útgerðarstað í Suðurkjördæmi, Grindavík. Við erum að tala um mjög stórar stærðir í strjálbýlinu og í mjög veikum byggðarlögum oft og tíðum. Þótt þau séu sterkust þar sem sjávarútvegurinn blómstrar og eru sannarlega burðarás byggðar í kringum landið megum við aldrei gleyma í þessari umræðu um veiðigjöld, hvernig við reiknum þau og leggjum þau á. Þó að umræðan hérna fari líka mikið yfir í að ræða fyrirkomulag fiskveiðistjórnarkerfisins, sem er í sjálfu sér ágæt umræða, erum við með mikil inngrip í efnahag þessara svæða og höldum í raun og veru á fjöreggi þeirra.

Þess vegna vísa ég aftur til þess að þegar hv. atvinnuveganefnd fer að fjalla um svona mál er mikilvægt að hún geri sér grein fyrir og meti áhrif þessara gjalda og hvernig þau fara með efnahag þessara svæða. Ég veit til þess að landshlutasamtök sveitarfélaga í Norðvesturkjördæmi eru að láta vinna greiningu á því hvernig álagning veiðigjalda á þessu ári hefur snert útgerðarfélög og byggðarlögin þar af leiðandi beint. Ég hef ekki séð þá niðurstöðu en mig grunar að þar sé ekki góðar fréttir að fá.

Ég er talsmaður þess að við viðhöldum fjölbreyttu útgerðarformi, viðhöldum því að sem flestir hafi möguleika á að skapa sér þar vettvang. Við erum nákvæmlega ekki að styðja við það með því að hafa þessi gjöld of há. Við erum að eyðileggja það, eyðileggja þá fjölbreytni sem ég held að við í þessum sal viljum flest standa fyrir og vernda. Það verðum við að kannast við þegar við ræðum þessi mál, hvernig við stuðlum með störfum okkar að þróun sem almennt er ekki stuðningur við að verði, einsleitar útgerðir og einsleitt útgerðarform á Íslandi. Það er einmitt styrkleiki Íslands og Íslandsbyggðar að hafa fleiri en færri útgerðarstaði, fleiri en færri útgerðir og fjölbreytt útgerðarform. Við erum að veikja það með háu veiðigjaldi og umræðan hefur hérna talsvert snúist um útboð og uppboð á veiðiheimildum og ég verð að segja að það er umræða sem bítur svolítið í skottið á sér hér í dag líka, þegar menn byrja á að segja að hér væri best að ákvarða þessa gjaldtöku með frjálsum útboðum en tala síðan um öll inngripin sem menn ætla að hafa í þau útboð. Hvað er þá unnið með því ef menn ætla síðan að fikta í öllum forsendunum á pólitískum forsendum (Gripið fram í.) til þess að fá fram einhver atriði sem þeir vilja þá líka standa fyrir?

Við gleymum líka mjög oft í umræðu um veiðigjöld og fiskveiðistjórnarkerfið að við erum með 5,3% allra aflaheimilda, 32.000 tonn nú, til ýmissa sérúrræða, til að viðhalda útgerðarformi og fjölbreytileikanum. Í mínum huga eru það líka veiðigjöld. Þessi 5,3% eru raunverulega hryggsúlan í því sem við getum kallað byggðastefnu sjávarútvegsbyggða og það kerfi sem við höfum í kringum þá potta og er kannski verðmætasta beina framlagið okkar til byggðamála sem pólitíkin í það minnsta heldur utan um og fjallar um á hverjum tíma. Það er ákaflega villandi að halda því fram að við getum leyst slíkt með einhverjum patentlausnum sem stundum er talað fyrir. Ég ber samt virðingu fyrir þessum sjónarmiðum og ætla ekkert að segja að þau séu algalin, nema síður sé. En þetta verðum við að kannast við að er mikil ábyrgð okkar, hvernig við höldum á þessu mikla fjöreggi.

Það er mikill misskilningur að halda því fram að það séu engar markaðstengingar í því frumvarpi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur hér fram. Fiskverðið eða aflaverðið sem er raunverulegt andlag gjaldsins er fyrst og fremst ákveðið á markaði. Þar af leiðandi er bein markaðstenging við það. Þetta er nefnilega miklu meira alvörumál en svo að við getum ekki kannast við það í þessum sal að fjárhæð veiðigjalda og aðferðin við að leggja þau á hefur reynst mörgum byggðarlögum í kringum landið á þessu ári gríðarlega þungbær. Við tölum oft um litlar og meðalstórar útgerðir þó að skilin séu óljós í þeim efnum, en auðvitað eiga stóru, samsettu fyrirtækin meiri möguleika á að bregðast við slíkum sveiflum en minni fyrirtækin. Veruleikinn er sá að minni fyrirtækin strögla. Minni útgerðarfélögin eru í verulegum vandræðum vegna þess að þau þurfa að standa í skilum á afkomu ársins í ár fyrir afkomu sem er tveggja, þriggja ára gömul. Það er hin kalda staðreynd.

Menn tala um að hér sé verið að stórlækka veiðigjöld, stórlækka þau gjöld sem ríkissjóður hefur af nýtingu þessarar auðlindar en gleyma menn því þá að við getum ekki tekið jafn há gjöld af afkomu sem hefur hrunið?

Það er mikill vandi, eins og í mörgum mannanna verkum, að fást við það hvernig við umgöngumst þessa viðkvæmu gjaldtöku. Fátt er meira eyðandi fyrir sjávarútvegsbyggðir okkar og mörg byggðarlög allt í kringum landið en að þau standi frammi fyrir því að við kippum með mannanna verkum fótunum undan þeim. Það er nóg að þurfa að kljást við náttúruna og duttlunga hennar, virðulegi forseti.