149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:51]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál snýst um hversu hátt verð þjóðin á að fá fyrir sína meginauðlind. Hér liggur fyrir að veiðileyfagjald á að vera 7 milljarðar. Næstu þrjú árin verður það 6–8 milljarðar. Til að setja þessa tölu í samhengi er tóbaksgjaldið sem við innheimtum 6 milljarðar. Þetta telja ríkisstjórnarflokkarnir sanngjarnt verð fyrir aðgangsmiða að einum gjöfulustu hafsvæðum í heimi.

Setjum þessa 7 milljarða kr. tölu í smásamhengi. Íslenskur sjávarútvegur hagnaðist um 370 milljarða á átta árum. Árið 2017 hagnaðist hann um 27 milljarða. Arðurinn, einungis arðurinn sem eigendurnir taka úr fyrirtækinu, var 14,5 milljarðar í fyrra. Sé litið til sjö ára var arðurinn 80 milljarðar. Þess vegna er afskaplega sérkennilegt að hér standa stjórnmálaflokkar og telja að 7 milljarðar séu í einhverju samhengi óréttlát tala þegar þeir tala um eina verðmætustu sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Af hverju er hann ekki til í að hækka þetta verð svo þjóðin (Forseti hringir.) fái réttlátan skerf fyrir meginauðlind sína?