149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum verið alveg fyllilega sammála um og þá samstiga í gleði okkar yfir arðsemi íslensks sjávarútvegs. Það er alveg rétt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur leitt til mikillar arðsemi sem er vel og á ekkert að vera að amast við því. Það er bara jákvætt þegar burðaratvinnugrein sem þessi skilar góðri afkomu og við eigum að fagna því.

Ástæðan fyrir að ég spurði hv. þingmann var að hann virtist amast í öllu við því að útgerðin greiddi yfir höfuð veiðigjöld og flokkaði svokallaðan byggðakvóta, 5,3%, sem einhvers konar veiðigjald sem gengur þá þvert gegn því að þjóðin eigi auðlindina, heldur höfum við einhvern veginn tekið þessi 5,3% af kvótahöfum sem er alveg grundvallarmunur á skilningi um þjóðareign eða ekki.

Rekstrarvandi greinarinnar verður fyrst og fremst rakinn til mikillar styrkingar á gengi krónunnar sem er sami rekstrarvandi og allar útflutningsatvinnugreinar í landinu eiga við að glíma. Ég velti fyrir mér hvar séu þá sérstök skattáform ríkisstjórnarinnar til lækkunar á gjöldum eða sköttum fyrir aðrar útflutningsgreinar í landinu.