149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég sé ekki hár í loftinu finnst mér alveg óþarfi að ætla mér það sem hv. þingmaður lætur liggja að með orðum sínum í andsvarinu. Ég lagði hvergi til og sagði hvergi að ég væri á móti því að sjávarútvegurinn greiddi þessi gjöld þannig að ég frábið mér slík orð sem mér fannst liggja í seinna andsvari hv. þingmanns.

Vandinn er að framlegðin hefur minnkað verulega. Ég er alveg sammála hluta af þeirri greiningu sem hv. þingmaður leggur hér fram, m.a. um styrkingu á gengi krónunnar. Sjávarútvegurinn varð fyrir áfalli í kjölfar sjómannaverkfalls. Hann hefur ekki almennilega unnið sig upp úr því á nýjan leik. Við búum við annan efnahagslegan veruleika þar sem ferðaþjónustan er orðin stór atvinnugrein. Það er hún sem ræður orðið í mun ríkari mæli um gengi krónunnar. Það er svolítið önnur mynd (Forseti hringir.) en sjávarútvegur hefur búið við undanfarna áratugi.