149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lagði ekki til flokkun útgerða. Ég starfaði áður í hv. atvinnuveganefnd þar sem við spreyttum okkur á umræðu um hvað væri meðalstór útgerð. Litlar og meðalstórar útgerðir liggur mér við að segja að sé frasi í allri umræðu og afskaplega óljóst hvar þau mörk liggja. Þau geta legið við 100 eða 200 tonn eða hvað það er, en um það er svo sem engin meginlína.

Það sem ég legg áherslu á í meðförum nefndarinnar er að menn fari yfir afkomu allra útgerðaflokka, allra útgerða og hvernig veiðigjöldin hitta þær fyrir. Umræðan um frítekjumörkin er lifandi. Ég sé fyrir mér að hv. atvinnuveganefnd spreyti sig á henni í meðförum þessa þingmáls, hvort hún hafi möguleika á að hreyfa þau til eða stilla þeim upp með öðrum hætti.