149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Þingmaðurinn flutti hér ræðu þar sem farið var vítt og breitt yfir stöðuna í sjávarútvegi, ekki síst í Norðvesturkjördæmi þaðan sem þingmaðurinn kemur. Í ræðu þingmannsins var hins vegar ekkert að finna um einhverjar tillögur eða væntingar um breytingar — nema núna, það kom reyndar fram í andsvari að þingmaðurinn væntir þess að atvinnuveganefnd skoði afkomu hverrar útgerðartegundar og velti fyrir sér hvort hægt sé að stilla málinu einhvern veginn þannig að það mismuni þá útgerðarflokkum, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt.

Nú er staðan sú að hæstv. ráðherra hefur sagt að ekkert í frumvarpinu leiði til lækkunar veiðigjalda. Við eigum að sjálfsögðu eftir að fara betur yfir þetta í þinginu.

Er hv. þingmaður sammála því að ekkert í þessu frumvarpi leiði til lækkunar veiðigjalda? Telur þingmaðurinn að það sé nauðsynlegt og mun þingmaðurinn þá koma fram og hjálpa okkur hinum í að breyta lögunum þannig að tekið verði á vanda lítilla og meðalstórra útgerða (Forseti hringir.) með einhverjum hætti? Lögin gera það ekki eins og þau eru í dag og það er ekki hægt að fara með þau í gegnum þingið (Forseti hringir.) óbreytt.