149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er ágætt að því leytinu til að það færir álagninguna nær í tíma sem er mjög mikilvægt að sé gert. Að sjálfsögðu er ekkert annað í þessu frumvarpi. Þetta er ekkert merkilegt frumvarp fyrir neitt annað en það. Það er ekki tekið á neinum vandamálum sem eru í útgerðarflokkum í greininni vegna hárra veiðigjalda, vegna þess hvernig veiðigjöldin eru reiknuð og hvernig þau leggjast misjafnt á útgerðir. Við vitum alveg að stórútgerðir sem eru skuldlitlar eða skuldlausar jafnvel eiga miklu auðveldara með að borga veiðigjald, jafnvel þó að okkur finnist það ósanngjarnt að sumar þeirra borgi það þess vegna, frekar en þeir sem eru skuldsettir eða hafa fjárfest og skulda þess vegna, skulda kannski eitthvað frá því í verkfallinu eða hruninu jafnvel.

Það er alveg einboðið að ef menn ætla ekki bara að tala um að gera þurfi breytingar verðum við að nýta atvinnuveganefndina eða þennan sal hér til að ná fram breytingum á frumvarpinu fyrir þessar litlu og meðalstóru útgerðir sem eru m.a. í Norðvesturkjördæmi, fyrir austan og í Suðurkjördæmi líka. Fyrst og fremst landsbyggðarútgerðirnar eru í þessum vanda og (Forseti hringir.) við verðum þá bara að standa saman um að gera nauðsynlegar breytingar.