149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:51]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú kom margt fram í ræðu hv. þingmanns sem mér þykir áhugavert, t.d. sú fullyrðing að ekki séu lögð gjöld á aðrar tegundir notkunar á auðlindum. Ég er viss um að vörubílstjórar verða rosalega hissa á að frétta að ekki sé rukkað kílómetragjald fyrir notkun á vegum og fyrirtæki sem stunda efnistökur úr malarnámum verða hissa á að þau borgi ekki fyrir efnistöku þar. En það er einmitt þessi mikilvæga spurning, hvort veiðigjöld séu skattur, sem virðist vera rauði þráðurinn í ræðu hv. þingmanns.

Almennt séð er talað um að skattar séu lagðir almennt á meðan gjöld eru innheimt fyrir ýmist þjónustu eða fyrir afnot af takmarkaðri auðlind. Þannig get ég alveg tekið undir að útvarpsgjald sé þannig séð ekki gjald heldur nefskattur. Við eigum auðvitað að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

En athugum að veiðigjöld eru ekki bara rukkuð af fyrirtækjum í sjávarútvegi að gamni. Þau eru rukkuð mjög sértækt, þau eru bókstaflega rukkuð fyrir aðgang að auðlindinni. Þetta er því að engu leyti frábrugðið efnistökugjaldi í malarnámi eða gjaldi fyrir raforkuframleiðslu. Þetta eru auðlindir. Þær eru takmarkaðar. Og, nota bene, þær eru eign þjóðarinnar.

Almennt hefur verið pólitísk sátt um að gjald sé greitt fyrir afnot af auðlindum, rétt eins og ég myndi greiða hóteleiganda fyrir afnot af hótelherbergi. En ef þetta er skattur, hvernig stendur þá á því að fyrirtæki eru almennt ekki rukkuð um þetta? Til dæmis fyrirtæki í landbúnaði eða ferðaþjónustu? Þannig ættu skattar jú að virka. Og svo verð ég að spyrja, í ljósi ummæla hv. þingmanns, hvort störf í heilbrigðisgeiranum séu eitthvað minna verðmæt en störf í sjávarútvegi eða tæknistörf hjá sprotafyrirtækjum. Eru þau minna verðmæt? Eru störf í ferðaþjónustunni minna verðmæt en störf í sjávarútvegi? Því að málflutningur hv. þingmanns virðist ganga út frá því að þau séu einhvern veginn alveg rosalega sér á báti og þess vegna megi ekki rukka afnotagjöld af auðlindum.