149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Hv. þingmaður gat sér eiginlega til um næstu spurningu mína því að hér er notast við orðið þjóðnýting. Við erum að tala um að auðlindin sem slík sé sameign þjóðarinnar. Um það hljótum við öll að vera sammála. Gjaldtakan snýr að einhvers konar afgjaldi fyrir nýtingarheimildina sem slíka, hvernig sem við færum það síðan í form. En það er kannski eðli svokallaðrar samningaleiðar eða fyrningarleiðar, eða hvaða orð sem við viljum nota — ég kalla það nú ekki þjóðnýtingu, þegar auðlindin er fyrir í eigu þjóðarinnar. Ég veit að hv. þingmaður er frjálslyndur og markaðshyggjumaður í grunninn. Sjávarútvegurinn hefur verðlagt á markaði virði aflaheimilda á hverjum tíma til þessa undir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þar höfum við í raun bara treyst markaðnum til að ráða för. Af hverju getum við ekki (Forseti hringir.) treyst markaðnum til að ráða för þegar kemur að veiðigjaldinu sjálfu í gegnum slíkt kerfi eins og samningaleiðina, þ.e. að nýtingarrétturinn sé boðinn út til skilgreinds tíma og greinin sjálf ráði þannig, út frá afkomu sinni hverju sinni, hvað hún sé að greiða?