149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:06]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ekki gert ráð fyrir því að gjald sé tekið af vinnslu og frumvarp þetta dregur þá línuna við borðstokk skipanna. Margir þeir sem eiga skip eiga sömuleiðis vinnslustöðvar. Það eitt og sér skapar tiltekna áhættu á því að línan sé dregin við borðstokkinn og hún opnar dyrnar fyrir því að menn kaupi sjálfir fiskinn á verulega lágu verði af eigin skipum, hámarki síðan hagnað inni í vinnslu og breyti þá sömuleiðis hlut sjómanna í kjarasamningum.

Hv. þingmaður minntist áðan á þessar áhyggjur og taldi í raun að ríkisskattstjóri hefði heimild til að kanna reikninga þeirra félaga með tilliti til villandi upplýsingagjafar. Þá spyr ég: Væri í raun og veru ekki rétt að bæta bara við frumvarpið einhvers konar varnagla til að koma í veg fyrir þennan möguleika í stað þess að láta einungis ríkisskattstjóra eftir að koma upp um slíka háttsemi eftir á? Telur hv. þingmaður þá leið ekki of veika til að takast á við þetta mögulega vandamál?