149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:07]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er nei. Ég hef enga ástæðu til að ætla að ríkisskattstjóra, sem er ein helsta stofnun ríkisins í málefnum innheimtu og álagningu skatta, sé ekki treystandi til verksins. Sú hætta sem hv. þingmaður reifaði í andsvari sínu er miklu frekar til staðar í núgildandi lögum. Það er með þeim heimildum sem er verið að setja hér inn með frumvarpinu, heimildum sem eru beinar skírskotanir til tekjuskattslaga, heimildir handa ríkisskattstjóra til að sannreyna og villuprófa þær upplýsingar sem berast. Það er refsivert að svíkjast undan skatti og þá hefur ríkisskattstjóri að mínu mati allar heimildir til að koma í veg fyrir það sem hv. þingmaður ýjar hér að. Er hægt að koma í veg fyrir að menn svíki undan skatti? Nei, því miður er ekki hægt að gera það en það er hægt að leggja við því refsingar og gera það sem þarf, eins og er verið að gera í þessu frumvarpi, til að draga úr því.

Það er eitt til viðbótar við þetta sem er vert að minnast á og er auðvitað að finna í þessu frumvarpi og það er í 5. gr., að menn átti sig á eðli þess hvernig ríkisskattstjóri ákvarðar gjaldstofninn. Þá er það samtala allra útgerðaraðila sem er búið að deila niður á skip á hvern nytjastofn sem um er að ræða. Það er ekki verið að taka hvern og einn útgerðaraðila fyrir og leggja á hann eða hans tilteknu afkomu. Þetta er heildarsöfnun fyrir afkomu greinarinnar og svo er það lagt á í fastri krónutölu á hvert kíló.