149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu og nálgun á málið. Það er hárrétt að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er ekki gallalaust en óumdeilt er að það hefur í heildina tekið reynst mjög vel. Íslendingar geta í raun gengið stoltir fram á alþjóðlegum vettvangi og borið þetta stjórnarkerfi fram og eftir því er tekið.

Ég tek undir þær áhyggjur og deili þeim með hv. þingmanni að þær hugmyndir sem hafa komið upp í tengslum við umræðu um veiðigjald hér í dag eru lítt ígrundaðar. Talsmenn þeirra hugmynda virðast vera tilbúnir til þess að setja þann árangur sem náðst hefur á altari óskhyggju sem er illa útskýrð.

Ég deili að mörgu leyti áhyggjum með hv. þingmanni af afkomu útgerða, margra, í landinu. Ég hef nefnt það að þetta sé sambærilegt því að kaupa sér veiðileyfi, sama hvort það er lax eða silungur, sama hvort það er dýr á eða ódýr. Þegar maður kaupir leyfi til að ganga til veiða í vatnsfalli er engin skuldbinding fólgin í því um það hvort maður veiði mikið eða lítið eða hvernig búnað maður hefur o.s.frv. Þetta er bara gjald sem þarf að greiða, hvort sem það eru 1.000 kr. eða 100.000 kr. í ánum og hugsunin í auðlindagjaldatektinni er á sama veg.

Ég spyr hv. þingmann hvað hann sjái fyrir sér að þurfi að breytast í þessu gjaldafrumvarpi til þess, eins og hann orðaði það, að útgerðin í landinu geti sæmilega vel við unað. Hvað þurfum við að stilla af með öðrum hætti í þessu frumvarpi svo hægt sé og unnt af hálfu Alþingis að mæta óskum hv. þingmanns?