149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það sem er pólitískt í þessu er bara kerfið sjálft en verðmyndunin er ekki pólitísk, hún er ákveðin markaðslega. Við sáum það á töflu í ráðuneytinu. Þegar verið var að útskýra þetta frumvarp fyrir okkur var tekið mið af einu kílói og þá var eitthvert verð fundið út úr markaðnum. (SMc: Með þessum pólitísku reikniaðferðum.) Með þessum pólitísku reikniaðferðum? Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þingmann um hvort hægt sé að tala um pólitískar reikniaðferðir þegar tala er tekin út úr markaði og meðaltal reiknað. Ég get ekki séð það.

Eins og hefur komið fram finnst mér að menn þurfi að rökstyðja betur að markaðsleiðin sé fær leið. Þegar fólk er að tala um markaðsleiðina er miðað við það sem er verið að leigja aflamark á, á milli útgerða, aflamark er sem sagt innan ársins. Þeir sem stjórna því verði eru þeir sem leigja þetta til sín því að þeir treysta sér til þess að veiða fiskinn með því að borga þessa vissu upphæð fyrir hann og enginn ákveður það nema útgerðin sem leigir til sín.

Ef mér finnst of dýrt að leigja til mín eitt kíló af þorski eða 10 tonn af þorski af því að verðið er svo hátt geri ég það ekki ef það borgar sig ekki fyrir mig að sækja hann út á sjó. Enginn stjórnar því annar en ég.