149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:24]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir um margt mjög fróðlega ræðu. Hann fór um víðan völl og í máli hans, eins og annarra þingmanna Viðreisnar og miðað við sjónarmið m.a. þingmanna Samfylkingarinnar, miðast umræðan svolítið við hvaða breytingar þeir ágætu flokkar vilja sjá á fiskveiðistjórnarkerfinu. Allt í góðu með það, þeim flokkum og hv. þingmönnum er auðvitað frjálst að koma með breytingartillögur eða ræða þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í efni frumvarpsins sem liggur fyrir og við erum að ræða. Ég hjó eftir því í máli hans að hann taldi frumvarpið vera til bóta. Hv. þingmaður sagði margt jákvætt við það en hann taldi líka að þar væru tæknileg atriði sem þyrfti að laga. En hver er afstaða hv. þingmanns til frumvarpsins? Getur hann séð fyrir sér að samþykkja það í núverandi mynd? Sér hann fyrir sér að gera einhverjar tilteknar breytingar á því og hvaða breytingar sér hann helst fyrir sér á þessari stundu að geta stutt eða ekki?

Ég nefni í því samhengi það sem kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur fyrr í umræðunni en ég heyrði ekki betur en að þar væri boðuð breyting á frumvarpinu þess efnis að hækka ætti gjaldhlutfallið upp í 50%. Mig langar að spyrja hv. þm. Þorstein Víglundsson hvort hann myndi taka undir þá breytingartillögu frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur.

Hv. þingmaður segist ekki vilja festast í umræðu um það hvort gjaldið sé of hátt eða lágt en leggur sig svo fram við að ná því fram hvað sé sanngjörn hlutdeild þjóðarinnar við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Þá kem ég að spurningunni: Telur hann núverandi gjald, (Forseti hringir.) sem hefur verið innheimt í ár, vera sanngjarna hlutdeild eða ekki? Telur hann það vera of hátt eða of lágt?