149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann vísar til þess að öllum þyki sinn fugl fagur í þessu en við í Viðreisn eigum ekki þennan fugl ein. Aðrir flokkar hafa komið fram með þessa hugmynd, m.a. Samfylkingin, Framsóknarflokkur kom fram með viðlíka hugmyndir, t.d. í vinnu þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Eins og ég skil það setti reyndar flokkur hv. þingmanns það líka sem skilyrði að um tímabundna samninga væri að ræða. Fjölmargir flokkar hafa horft til fyrirkomulags sem byggði á tímabundnum samningum, sjálfsagt með mismunandi útfærslum. Sú útfærsla sem við í Viðreisn höfum byggt á er í öllum megindráttum sambærileg við það sem samráðsvettvangur um aukna hagsæld setti fram sem hugmynd fyrir einum sjö árum eða svo. Það eru vel útfærðar og skynsamlegar hugmyndir að mínu viti.

Hvernig verðleggur markaður veiðiheimildir sem þessar eða nýtingarrétt sem þennan? Samningaleiðin eða fyrningarleiðin eða hvaða nafni sem við kjósum að nefna hana gerir ráð fyrir að þeir séu tímabundnir einkaréttarlegir nýtingarsamningar til 20–25 ára til að skapa einmitt nauðsynlegan fyrirsjáanleika og stöðugleika svo fjárfesting sé áfram öflug og góð og það sé hvati til að gera alltaf betur eins og hefur klárlega verið einn af stóru kostum núverandi kvótakerfis. Það þýddi þá að 4–5% þessara veiðiheimilda á Íslandsmiðum yrðu boðin upp á hverju ári, seld, og andlagið eða kaupverðið sem er þá verðlagt á markaði eftir því hvað bjóðendur, þ.e. sjávarútvegsfyrirtækin í landinu, eru tilbúnir að greiða fyrir þessar heimildir rennur síðan í ríkissjóð. Við höfum líka lagt á það ríka áherslu að afraksturinn af þessu renni til sjávarútvegsbyggðanna, til landsvæðanna þar sem aflaheimildirnar eru upprunnar til þess einmitt að landsbyggðin njóti góðs af veiðigjaldinu sem slíku eða auðlindagjaldinu.