149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu en hann verður að virða við mig að ég er dálítið áttavilltur þegar kemur að afstöðu Vinstri grænna til veiðigjalda því að eins og kom fram í fyrra andsvari var flokkur hv. þingmanns ansi aðgangsharður í umræðu um að veiðigjöld væru allt of lág. Auðvitað verður að hafa í huga að þegar veiðigjöldunum var fyrst komið á með öllu hærri álagningargrunni en nú er um að ræða var það í sjávarútvegsráðherratíð flokksmanns Vinstri grænna. Ég spyr þegar hv. þingmaður talar um sátt um þetta fyrirkomulag: Er sú sátt af hálfu Vinstri grænna einskorðuð við stjórnarsamstarfið, þ.e. að á meðan Vinstri græn eiga í stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn sé þetta sátt en flokkurinn muni síðan taka upp fyrri stefnu þegar hann er laus allra mála úr núverandi stjórnarsamstarfi?

Það snýr bæði að gjaldtökunni sjálfri, þ.e. fjárhæð gjaldsins sem Vinstri græn hafa ítrekað gagnrýnt að sé of lág, og hugmyndum Vinstri grænna um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem virðast núna hafa verið lagðar algjörlega til hliðar. Er það eingöngu vegna málamiðlunar við þá flokka sem Vinstri græn eiga núna í stjórnarsamstarfi við eða hafa Vinstri græn algjörlega horfið frá þeirri stefnu?