149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar síðustu spurninguna get ég bent hv. þingmanni á að Vinstri græn samþykktu nýja stefnu í sjávarútvegsmálum sem ég hélt að einstakir aðdáendur Vinstri grænna hefðu fengið tilkynningu um í tölvupósti á síðasta landsfundi sínum. Að mínu viti rímar þessi tillaga að mörgu leyti vel við þá stefnu sem þar var samþykkt.

Hvað varðar skilyrðingu hv. þingmanns í spurningu sinni ætla ég ekki að taka þátt í slíkum pólitískum skylmingum og hvet hv. þingmann til að kynna sér stefnuna hjá Vinstri grænum og sjá, eins og ég segi, að þetta rímar að mörgu leyti alveg þar við enda er í sjálfu sér margt þarna inni sem var í þeim frumvörpum sem urðu að lögum um veiðigjöld þegar vinstri stjórnin sat 2009–2013.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um að við skiptum um skoðun. Einhverjum finnst það þroskamerki. Ég var að lesa viðtal við hv. þingmann úr Fréttablaðinu þegar hann var varaformaður Samtaka iðnaðarins þar sem hann var spurður út í uppboðsleið. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þegar uppboðsmarkaður er settur á fót þar sem kaupandinn er settur í þá aðstöðu að fá allt eða ekkert, en þannig var þetta í lóðauppboðum þar sem þeir fengu [samninginn] sem voru nógu kaldir að bjóða, þá skaparðu hættu á því að verðlagning verði óraunhæf. Ef þú býrð til skort þá hækkarðu verð.“

Mér heyrist hv. þingmaður tala dálítið öðruvísi núna en hann gerði þá þannig að hann þekkir það vel að einhverjir þingmenn í það minnsta skipti um skoðun standandi í þessum stól.