149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni tilvitnunina í mig. Já, það að skipta um skoðun getur verið hið ágætasta þroskamerki. Ég hef skoðað kosti og galla hinnar svokölluðu uppboðsleiðar mun betur í seinni tíð og með þeim breytingum sem orðið hafa á þeim tillögum er ég að verða sífellt hrifnari af þeirri leið og tel hana ekki haldna sömu ágöllunum og ég taldi áður.

Ég spurði hv. þingmann um frekari skýringar á hringlandahættinum í Vinstri grænum þegar kemur að fjárhæð veiðigjaldsins, þessari ítrekuðu gagnrýni á að það skili allt of litlum tekjum en nú sé hér komin hin sögulega sátt sem þó eigi að skila að meðaltali svipuðum tölum, og nú langar mig að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi er í greinargerð frumvarpsins farið yfir hvernig þessi nýja aðferðafræði rímar við raunálagningu veiðigjalds á undanförnum árum. Í gildi var töluverður afsláttur vegna skulda af veiðigjöldum á fyrri árum. Nú velti ég fyrir mér: Er tekið tillit til þess í þessum uppreikningi? Ella er hér væntanlega um að ræða umtalsvert lægra veiðigjald að meðaltali en lá til grundvallar fyrir þennan sérstaka skuldaafslátt á þessu tíu ára meðaltali sem vísað er til.

Ástæða þess að ég þráspyr hv. þingmann um stefnu Vinstri grænna í þessu er einmitt sú að það er búið að ræða þessi veiðigjöld nánast á hverju einasta löggjafarþingi undanfarin áratug eða svo og er einmitt vísað til þess og þessa mikla óstöðugleika í þessu frumvarpi. Mér þætti ágætt ef hv. þingmaður gæti útskýrt fyrir mér sannfæringu sína, sér í lagi í ljósi umræðunnar hér í dag, fyrir að þar á verði einhver grundvallarbreyting með þessu frumvarpi.