149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af hverju ég hafi þá sannfæringu, spurði hv. þingmaður mig í lok máls síns. Vegna þess sem ég hef nefnt hér, að það er horft til síðustu tíu ára. Það er reynt að taka með allar þær aðgerðir og aðferðir sem ríkisstjórnir síðustu tíu ára hafa sett fram, þar með talin ríkisstjórnin sem hv. þingmaður var ráðherra í.

Þegar talið berst að hringlandahætti þegar kemur að upphæð (Gripið fram í.) veiðigjalda kom ég inn á það fyrr í dag að hefði þessu frumvarpi verið beitt árið 2017 þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn hefðu innheimt veiðigjöld verið 3,5 milljörðum hærri en þau urðu í raun. Ég veit ekki alveg í hvað hv. þingmaður vísar þegar hann talar um hringlandahátt og held að það sé einhvers konar pólitísk (Gripið fram í.) þrætueplisbitareyning, segi ég, af því að ég hef gaman af því að búa til ný orð.

Af hverju erum við að þessu? Af hverju erum við að reyna að ná þessari átt? Ja, núverandi formaður Viðreisnar, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, var ef ég man rétt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fyrra. Er það ekki rétt munað hjá mér að hún hafi tekið á móti áfangaskýrslu um rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi? Þar segir m.a. að á árinu 2016 hafi tekjur í sjávarútvegi dregist saman um 25 milljarða, þ.e. 9%, EBITDA lækkað o.s.frv.

Ég hef aldrei heyrt hv. þingmann eða aðra þingmenn Viðreisnar útskýra hvernig þeir hefðu ætlað að koma til móts við þetta öðruvísi en þá að lækka veiðigjöldin. Við leggjum hér fram tillögu sem hefði skilað 3,5 milljörðum, meira að segja rúmlega, hærri veiðigjöldum (Forseti hringir.) í fyrra en voru innheimt í ríkisstjórnartíð hv. þingmanns.