149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður verðum þá að vera sammála um að vera hjartanlega ósammála um að þetta sé í öllum grundvallaratriðum gott frumvarp. En við erum kannski sammála um að gagnrýnin flæðir að einhverju leyti þarna á milli þegar reynt er að finna út sanngjarnan, gegnsæjan og fyrirsjáanlegan greiðslugrunn. Ég reyndi að nálgast það með því að skipta umræðu minni í tvennt, annars vegar að ræða um stefnu í fiskveiðistjórnarmálum, þ.e. gjaldtökuna þar, uppboðsleiðina, síðan hvernig hægt væri að gera bragarbót á veiðigjaldafrumvarpinu út af fyrir sig með því að nota þessi viðmiðunargjöld. Það er nú önnur saga.

Ég var á hlaupum hér úti í sal og heyrði ekki allt sem hv. þingmaður sagði. Hann nefndi ferðaþjónustuna. Ég túlka það sem svo að hann hafi rætt þar um að nýting annarra atvinnugreina á náttúruauðlindum lyti ekki sömu reglum og sjávarútvegurinn. Þar er ég sammála. Mig langar til að henda boltanum yfir á hv. þingmann, sem tilheyrir flokki og stjórnarmeirihluta, sem er með nákvæmlega það ráð í hendi sinni, og spyrja hvort hann sé ekki sammála mér í því að eðlilegt væri að næsta skref í þessari stóru þjóðarauðlindaumræðu okkar væri að gera gangskör að því að klára þessi mál í ferðaþjónustunni, svo ég skjóti henni nú inn í langa og áhugaverða umræðu um sjávarútvegsmál.

Síðan ætla ég, af því að ég á merkilegt nokk nokkrar sekúndur eftir, að fagna orðum hv. þingmanns um markaðsleiðina og frelsið sem þar hlýst af. Mig langar til að fá hann til liðsinnis. Það er alveg ljóst að þetta er ekkert sérstaklega einfalt. En hugsið ykkur nú ef þingheimur sameinaðist um að finna þessa leið. Ég er viss um að við fyndum góða leið og næðum að varðveita fegurðina í frelsinu.