149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:50]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni þykir ekki nógu mikið rætt um þetta tiltekna frumvarp og því vil ég koma til móts við hann hér. Ég vil samt byrja á því að segja að mér þykir ekki sérlega óeðlilegt að fólk ræði almennilega hvers konar köku það vilji yfir höfuð baka þegar lögð er fram uppskrift að botninum á henni.

Að frumvarpinu sjálfu: Kerfisáhætta hefur áhrif á virði aflahlutdeilda, þannig lækkar aukin áhætta virði hlutdeildanna og öfugt. Það er alveg ljóst að það að gera veiðigjöldin að pólitískri ákvörðun felur í sér meiri áhættu en að láta veiðigjöldin endurspegla raunverulega afkomu fyrirtækjanna. Því sýnist hverjum hér inni sitt um það hvað sjávarútvegsfyrirtækin geti borgað í veiðigjöld hverju sinni. Stjórnarflokkarnir virðast ekki einu sinni vera sammála um getu þeirra til þess.

Í stuttu máli: Með því að gera ákvörðun veiðigjalda að pólitískri ákvörðun er verið að auka áhættuna fyrir sjávarútvegsfyrirtækin með því að lækka virði aflaheimildanna sem þeirri auknu áhættu nemur. Og ráðuneyti hæstv. sjávarútvegsráðherra verður allt í einu mun mikilvægara en það er nú þegar. Hvað þykir hv. þingmanni um möguleikann á lækkuðu virði aflahlutdeilda? Og hvar er frelsið og hvar er fegurðin í því?