149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:13]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjald. Við fyrstu sýn og fyrsta yfirlestur virðist það hafa verið verulega bætt frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram í vor. Það frumvarp sem liggur nú frammi byggist á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að endurskoðun laga um veiðigjöld þurfi að hafa það að meginmarkmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og taka tillit til afkomu fyrirtækjanna. Mér finnst líka reiknistofninn skipta mjög miklu máli, það er verið að einfalda hann og gera hann skiljanlegri og gegnsærri.

Í núverandi lögum eru notuð gögn frá Hagstofunni. Ég er ekki að segja að þau séu röng en þau eru kannski ekki eins gegnsæ og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi því að gert er ráð fyrir að reiknistofn veiðigjaldsins endurspegli væntanlega afkomu betur og hætt verði að byggja á Hagtíðindum og gert ráð fyrir að gögn, sem verða lögð til grundvallar, verði byggð á gögnum frá ríkisskattstjóra og skattskýrslum fyrirtækjanna og gögnum frá Fiskistofu.

Þarna er verið að koma til móts við umsagnir og gagnrýni á fyrra frumvarp sem lagt var fram í vetur. Þarna er verið að horfa eins og hægt er til hverrar útgerðar og kannski ekki hægt að gera þetta einstaklingsmiðaðra en þetta, því að það skiptir verulegu máli. Eins og í flestum atvinnugreinum eru útgerðin og sjávarútvegsfyrirtækin misjafnlega byggð upp og eru kannski ekki öll jöfn í þeirri skiptingu sem hefur verið, enda er óbreytt álagning veiðigjalds röng miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í dag.

Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sérstaklega sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum í sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi, en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum, um tæp 60% á 12 árum.

Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið verður náttúrlega að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og fleiri þáttum í rekstri eins og tíðkast með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir nú ekki á afgjöldum af auðlindinni sem kostar okkur rótgróin fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir orð hv. þm. Teits Björns Einarssonar þegar hann sagði að hann væri á móti skattlagningu eða skatti vegna þess að á skattinum byggjum við upp samfélög að stórum hluta. Fyrirtæki og einstaklingar vilja greiða skatt svo að hægt sé að byggja upp innviði sem allir nýta sér.

Ég ætla því aðeins að fara út fyrir umræðu um veiðigjaldið sjálft eða þetta frumvarp, eins og svo margir hafa gert hér, en þó í umræðu sem er mjög tengd, skiptingu á auðlindagjaldinu. Núverandi kerfi kemur sér illa á ákveðnum svæðum um landið. Útgerðarmenn tala um landsbyggðarskatt og þeir sem vilja huga að nærsamfélaginu finnst blóðugt að ekkert af þessu gjaldi renni aftur heim í byggðarlögin. Landsbyggðarskattur, af hverju segir maður það? Sjávarútvegurinn er fjölbreytt atvinnugrein og er einkum utan höfuðborgarsvæðisins, eða alla vega í hlutfalli við önnur fyrirtæki og framleiðslu á svæðinu. Til dæmis er talað um að þjónustugreinar séu um 80% af framleiðslu á höfuðborgarsvæðinu. Þegar við komum að sjávarútveginum þá eru 16% framleiðslu á landsbyggðinni en aðeins 2% á höfuðborgarsvæðinu. Við horfum líka fram á vöxt í sjávarútvegi og hann er líka á landsbyggðinni. Þetta skiptir því máli. Það skiptir miklu máli ef við gætum komið þessu þannig fyrir að hluti af veiðigjaldinu rynni til sveitarfélaganna.

Hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fann ég útreikninga sem sýndu að ef við tækjum 20% af veiðigjöldunum og létum þau renna til sveitarfélaganna hefðu það verið 5,5 milljarðar á þremur árum, 2013–2016. Sveitarfélögin hafa enga hlutdeild í þessum gjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir.

En í 1. gr. þessa frumvarps, þar sem markmiðið er tilgreint, er nefnt að veiðigjaldið sé lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild sinni sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.

Það mætti bæta því inn í að þetta sé kannski vegna kostnaðar við innviðauppbyggingu vegna sjávarútvegs. Og veiðigjaldið eða auðlindagjaldið má kalla gjald vegna samfélagslegs kostnaðar við veiðar og afnot af sameiginlegri auðlind okkar. Þá væri ekki óeðlilegt að hluti gjaldsins rynni til sveitarfélaga og þeirra samfélaga sem útgerðin er rekin í því. Þar sem stærsti pósturinn í atvinnunni er útgerð og fiskvinnsla finna menn fyrst fyrir þeirri niðursveiflu sem verður í greininni og sveiflast í takt við það.

Hagræðingar í sjávarútvegi hafa miðað að því síðustu ár að tæknivæða í veiðum og vinnslu. Það veldur fækkun starfsmanna og þar af leiðandi minna útsvari til sveitarfélaga. En kostnaður sveitarfélagsins er oft sá sami og áður. Síðan bætist við veiðigjaldið og álagning veiðigjalda hvetur til enn meiri hagræðingar sem aftur kostar það að minna rennur inn af útsvari og áfram rúllar boltinn.

Það er náttúrlega hvati að hafa öfluga útgerð í plássinu og það þarf að byggja upp þjónustu og innviði svo sveitarfélagið geti staðið öflugan vörð um útgerðina, hafnaraðstæður og allt sem því viðkemur; kostnaðarhlutur sveitarfélaganna, grunnskólinn, leikskólinn og allt sem snýr að því.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Mörg sjónarmið hafa komið hér fram og mjög eðlilegt í eins stóru máli og þessu. Atvinnuveganefnd kemur til með að fjalla um frumvarpið. Skipting gjaldsins kemur náttúrlega ekki inn í þetta, en það er sjálfsagt að ræða það samhliða því að umræðan á fullan rétt á sér; hluti af umræðunni snýst um réttlætingu þessa gjalds.

Framkomið frumvarp ber það með sér að það er miklu nær því að skapa sátt um gjaldið eins og það er borið fram núna. Það er kannski fyrir það að það er að færast nær í tíma og er meira í líkingu við staðgreiðslu, það er gegnsærra og flækjustigin eru færri.

Það sem eftir stendur eftir umræðuna í dag er réttlát skipting, réttlát skattlagning. Í framhaldinu: Eigum við ekki að fara að leggja auðlindaskatt á fleiri auðlindir, heita vatnið, ferðamannaskatt? Hvar skal setja punktinn?

Ég ætla alla vega að setja punktinn hér í þessari umræðu. Ég lýsi ánægju minni með þá breytingu sem orðið hefur á frumvarpinu milli þinga.