149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:23]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Það má náttúrlega finna alls konar útærslur á þessu en þarna eru heil landsvæði, eins og þegar ég horfi á Vesturland og Vestfirði, þar sem er fækkun í fjölda útgerðarfyrirtækja. Tæknivæðing hefur kostað störf en umsvifin eru jafn mikil, þau flytjast ekki endilega á milli þorpa eða svæða. En það gæti alveg eins verið eins og hv. þingmaður nefndi með jöfnunarsjóðinn, þetta gæti alveg átt heima þar en þá þyrfti að búa til umgjörð þar til útdeilingar.

Við myndum kannski skipta þessu, vegna þess að ef við horfum á markmiðið yrði það að standa undir þeim kostnaði sem samfélagið ber af útgerðinni. Þá væri réttlátt að það færi til þeirra sem bera kostnaðinn, sem er að einhverjum hluta sveitarfélagið, auðvitað líka til þjóðarinnar allrar eins og segir í markmiðum varðandi rannsóknir, eftirlit, umsjón og allt það. Hafnarmannvirki sem slík eru náttúrlega mjög dýr en við þurfum að standa undir nútímanum þar líka.

En ég er ekki endilega með útfærsluna í fljótu bragði, hvort það væri jöfnunarsjóður, landshlutasamtök eða hvað, ég veit það ekki.