149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það sem upp úr stendur hér í dag, eftir að hafa hlustað á umræðuna að nokkru leyti, er að gjaldahlutfall veiðigjalds er óbreytt og í engu er litið til þeirra sjónarmiða sem uppi voru hér síðastliðið vor varðandi smáar og meðalstórar útgerðir. Hér er formúlerað ágætisfrumvarp hvað marga hluti varðar, sem snúa að tæknilegum atriðum, atriðum sem lausn hlaut að finnast á, til að mynda að færa gjaldtökuna nær í tíma, að taka vinnsluna út úr þessum útreikningum og þar fram eftir götunum. En það er þyngra en tárum taki að skautað skuli fram hjá stóru pólitísku málunum, sem snúa að upphæð veiðigjaldsins og því sem viðkemur litlum og meðalstórum útgerðum.

Af því að hæstv. ráðherra er kominn hér í salinn væri áhugavert — ég veit ekki hvort hann kemur upp í andsvar en ef ekki þá í ræðu á eftir — að heyra hvort hann hafi áform um að leggja fram annað frumvarp sem snýr að breytingum í þessum málaflokki. Ég get ekki ímyndað mér að nein sátt verði um það að litlar og meðalstórar útgerðir, svo dæmi sé tekið, verði algjörlega skildar eftir úti í vindinum, eins og það var einhvers staðar orðað, eða að veiðigjöldin, eins og þetta horfir við manni, eigi að festa býsna há til langframa — og allt of há að mínu mati.

Ég hef gagnrýnt það áður varðandi skattamál þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að þetta virðast allt vera orðin tæknileg útfærsluatriði. Það er einhver teknókratía yfir og allt um kring. Og í þessu frumvarpi er búið að leysa málin sem embættismennirnir hefðu getað fundið lausn á. En það er ekki búið að orða að neinu marki og eiginlega í engu þessi tvö lykilatriði sem eru upphæðin annars vegar og síðan staða litlu og meðalstóru útgerðanna.

Ég verð því að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er von á öðru frumvarpi á þessu þingi þar sem fjallað verður um málefni lítilla og meðalstórra útgerða annars vegar og heildarupphæð veiðigjaldsins hins vegar?

Við höfum horft upp á verulega samþjöppun í aflaheimildum á undanförnum misserum. Það er flest sem bendir til þess að því miður haldi sú þróun áfram. En ég held að flestir hér í salnum — og þeir sem gætu verið hér í salnum en eru það ekki — séu sammála um að það sé ekki ætlan þings að ýta undir frekari samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi. Þá er bara ágætt ef það kemur fram, ef það er ætlun þeirra sem hér eru.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt í dag. Ég held að Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, hafi sagt — með fyrirvara um að ég hafi rétt eftir honum — eitthvað á þá leið að hann hefði ekki gert sér grein fyrir að neinn ágreiningur væri um það að grípa þyrfti til aðgerða hvað smærri útgerðir varðar. Menn bara gáfu sér að það yrði niðurstaðan í þessu frumvarpi, að litið yrði til þeirra sjónarmiða sem uppi eru varðandi litlu og meðalstóru útgerðirnar. Ef minnið svíkur mig ekki var meira að segja sérstök bókun um það í afgreiðslu atvinnuveganefndar síðasta vor að til þeirra sjónarmiða yrði litið. Hér er bara algjörlega skilað auðu.

Frumvarpið er prýðilegt hvað það varðar að færa gjaldtökuna nær í tíma, hvað afkomu útgerðar varðar. Frumvarpið er prýðilegt hvað það varðar að vinnsla er undanskilin gjaldstofninum og það er ágætt hvað ýmisleg tækniatriði varðar. En ég vil lýsa yfir gríðarlegum vonbrigðum með það að gjaldhlutfall veiðigjalds sé óbreytt annars vegar og hins vegar að ekki sé tekið á málefnum lítilla og meðalstórra útgerða.

Að lokum vil ég beina þessari spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er von á öðru frumvarpi á þessu þingi þar sem tekið verður á heildarupphæð veiðigjalda og einnig á málefnum smærri og meðalstórra útgerða?