149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér fyrst að lýsa yfir ánægju með viðbrögð hæstv. sjávarútvegsráðherra sem virðist jafnvel reikna með því að tekið verði af festu á þessum tveimur hápólitísku atriðum í atvinnuveganefnd sem snúa annars vegar að upphæð veiðigjaldsins og hins vegar að því hvernig litlar og millistórar útgerðir koma út úr því. Ég þakka aftur fyrir þessi viðbrögð og treysti því að ég hafi ekki misskilið orð ráðherrans. (Gripið fram í.)

Aftur á móti verð ég að leiðrétta ráðherrann — a.m.k. horfði hann af svo mikilli festu á mig í hluta ræðu sinnar áðan að ég tók það til mín — því að svo mátti skilja að ég hefði efasemdir um framsal veiðiheimilda og samþjöppun á fyrri stigum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka fram, og við höfum sagt það í Miðflokknum, að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er í öllum meginatriðum gott og við teljum það vera það besta í heimi, svo það sé sagt. Það er ekki þannig að við séum að grafa undan því eða með efasemdir um það, í öllum meginatriðum eins og ég segi.

Það sem hefur verið að gerast undanfarin misseri er að fyrirtæki sem voru í ágætum rekstri, lítil og millistór, eru að kafna út af veiðigjöldunum og því hvernig þau hafa verið reiknuð út, sem er verið að laga núna og það hefur tekist prýðilega, sýnist mér, en pólitísku atriðin eru eftir, atriðin sem snúa að heildarupphæð. Heildarupphæðin er enn of há. Ég vona að atvinnuveganefnd komi með tillögur til bóta í þeim efnum. Síðan eru sjónarmiðin sem snúa að litlu og millistóru útgerðunum.