149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta er einmitt annar þátturinn af þeim tveimur sem ég legg megináherslu á, sá að heildarupphæð veiðigjaldanna er of há að mínu mati. Það fer yfir alla línuna.

Svo er annað. Ég talaði í fyrra andsvari mínu um að það sem hefði verið að gerast undanfarin misseri varðandi litlu útgerðirnar væri að við sæjum bara á þeim hraða sem menn hafa verið að selja frá sér veiðiheimildir á veikari svæðunum að greinilega væri eitthvað að gerast. Þó að ekki sé orðin til tveggja ára tölfræði sjáum við sem reynum að vera í raunheimum þetta gerast.

Hæstv. ráðherra kom áðan inn á mikilvægi uppbyggingar og sprotanna og þar fram eftir götunum. Þegar þrengt er að útgerðinni með þeim hætti sem gert er með veiðigjöldunum minnka tækifæri til fjárfestinga og þróunar, það er alveg ljóst. Margra hluta vegna tel ég gríðarlega mikilvægt að atvinnuveganefnd skoði með opnum huga hvort ekki hafi verið of langt gengið í upphaflegu nálguninni á veiðigjöldin og hvort síðan sé ekki of skammt gengið eða hreinlega ekki neitt í þessari útfærslu. Um það er ekki deilt að hérna er ekki tekið á því. Ég vona að atvinnuveganefnd taki á þessum tveimur þáttum því að þannig munu sprotarnir dafna best og byggðirnar sömuleiðis.