149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

vinnumarkaðsmál.

[13:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra er allur af vilja gerður til að taka á þessum málum. Hann var líka allur af vilja gerður fyrir rúmum átta mánuðum en ekkert lát hefur orðið á svindlinu. Getum við treyst því að eftir aðra átta mánuði hafi stjórnvöld tekið sig á í þessum málum og hinn sjúki hluti íslenska vinnumarkaðarins náð heilbrigði? Getum við treyst því að brugðist hafi verið við ákalli ASÍ um að lögbundin verði hörð viðurlög og sektargreiðslur við launaþjófnaði, að keðjuábyrgð verði fyrir allan vinnumarkaðinn, að kennitöluflakk verði stöðvað, að eftirlit verði skilvirkt og að tryggt verði að þeir einstaklingar sem brotið er á og vilja sækja rétt sinn njóti til þess stuðnings og hafi skjól, ekki aðeins verkalýðshreyfingarinnar heldur samfélagsins alls?