149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

vinnumarkaðsmál.

[13:43]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að síðan þessi mál voru rædd hér síðast erum við búin að samþykkja ný lög sem voru einmitt unnin í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Þau lög tóku að fullu gildi nú á haustdögum þannig að menn eru að byrja að vinna eftir þeim. Varðandi það að setja aukinn kraft í þessi mál minni ég aftur á að Vinnumálastofnun hefur þegar á þessu ári farið í fleiri eftirlitsferðir en hún gerði allt árið í fyrra og árið er ekki búið.

Vinna er farin í gang, m.a. í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, um að ræða frekari aðgerðir sem miða að því að setja viðurlög við alvarlegum brotum til starfsmannaleigna og ekki bara það heldur almennt á vinnumarkaði. Það er þegar til umræðu. Hefur m.a. verið komið af stað umræðum um það hvernig það skuli gert, með hvaða hætti, hvaða viðurlögum skuli beita, vegna þess að við eigum að stíga frekari skref í þá veruna. Ég vænti stuðnings frá hv. þingmanni við það og þakka fyrir það. Þetta er gríðarlega mikilvægt og við eigum að taka höndum saman um þetta.