149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

flugvellir og flugvallaþjónusta.

[13:45]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Fyrir Alþingi verður í dag lögð fram þingsályktunartillaga um samgöngumál fyrir árin 2019–2023. Þar er komin stefna núverandi ríkisstjórnar í flugmálum. Ég stóð hér síðast í ræðustól 26. apríl sl. og spurði hæstv. ráðherra samgöngumála um stefnu ríkisstjórnarinnar í flugmálum. Ég fékk þau svör að allt of lítið hefði verið gert í allt of langan tíma til að bæta ástand innanlands- og varaflugvallakerfisins á Íslandi og nú væri ekki lengur hægt að sitja hjá.

Staðreyndin er hins vegar sú að nú, tæpum sex mánuðum síðar, er setið hjá. Stefna ríkisstjórnarinnar er, samkvæmt samgönguáætlun, að halda flugvallakerfinu í algjöru fjársvelti. Engin áform eru uppi um að varaflugvellir fyrir Keflavíkurflugvöll geti sinnt hlutverki sínu, þ.e. þeir verða áfram frumstæðir og þær rúmlega 10 milljónir farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á ári hverju munu búa við þá staðreynd að öryggi þeirra er ekki tryggt.

Þrisvar sinnum á síðustu 18 mánuðum hefur skapast hættuástand vegna mikillar flugumferðar, veðurs og bágs ástands flugvalla á Íslandi. Vissulega kosta framkvæmdir við flughlið og akbrautir, flugleiðsögubúnað og fjarskiptatæki mikla fjármuni. En því skal haldið til haga að flugiðnaðurinn stendur nú undir 20% af vergri þjóðarframleiðslu og hefur aukist úr rúmum 6% frá árinu 2010 án þess að framlög ríkisins hafi aukist í samræmi við framlög iðnaðarins til þjóðarbúsins. Það stingur því í stúf að í téðri þingsályktunartillögu er fullyrt að enginn innanlandsflugvallanna, þar með taldir flugvellirnir í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum, sé sjálfbær. Það virðist vera átylla til að réttlæta fjársveltið.

Það er í hrópandi ósamræmi við niðurstöðu kostnaðar- og ábatagreiningar í skýrslu sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið 2014. Þar kemur fram að þjóðhagsleg arðsemi fjárfestinga í innanlandsflugvallakerfinu umfram útgjöld sé 48% og þó hefur flugiðnaðurinn vaxið gríðarlega síðan þá.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort stefna stjórnvalda sé að svelta flugvalla- og flugleiðsögukerfið á Íslandi og taka áhættuna og ábyrgðina á að hér verði stórslys í flugi sem afstýra mætti með ákvörðun (Forseti hringir.) um að sækja fram í flugmálum sem er meginstoð þjóðarbúsins nú. Enn fremur spyr ég um rekstrarsamning Isavia ohf. og ríkisins. Er Isavia með undirritaðan rekstrarsamning í gildi vegna flugvalla í eigu ríkisins?