149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

flugvellir og flugvallaþjónusta.

[13:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við getum auðvitað deilt um það hvað er nóg. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þyrftum vissulega meiri fjármuni til að geta gert hlutina hraðar og komið þeim fyrr í það horf sem við viljum hafa þá. En það er staðreynd að verið er að bæta verulega í.

Mér finnst það líka umhugsunarefni hvort við í þessum ræðustól, í pólitískri umræðu, tökum jafn alvarlega hluti og flugöryggi til umfjöllunar. Það er einfaldlega þannig að flugöryggi er býsna gott hér á Íslandi og meira að segja að mati allra þeirra alþjóðlegu aðila sem koma þar að, þó að vissulega geti komið upp einstök tilvik sem bent er á að bregðast þurfi við og bæta í. Almennt séð er flugöryggi mjög mikið hér á Íslandi, flugvellirnir koma vel út, Isavia stendur sig vel, flugfélögin standa sig vel, flugmennirnir sem stjórna flugvélunum eru öruggir. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að úr þessum ræðustól sé ekki verið að skapa óþarfan ótta um að ástandið sé ekki öruggt hér. Það er það svo sannarlega, það er mjög öruggt ástand í flugi á Íslandi.