149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

lögbann á Stundina.

[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna um mikilvægt mál. Snemma á þessa árs skipaði ég starfshóp til að fjalla sérstaklega um þau mál sem tengjast m.a. þeirri ályktun, IMMI-ályktuninni í daglegu tali nefnd, sem hv. þingmaður vísaði til, þ.e. ályktun um vernd tjáningarfrelsis og ég man ekki nákvæmlega síðari hlutann á fullu heiti hennar á íslenskri tungu, en IMMI-ályktunina skulum við kalla hana. Sá hópur hefur verið að störfum og gaman er að segja hv. þingmanni frá því að hann mun skila af sér fimm frumvörpum í lok þessarar viku og kynna þau. Þau verða þá sett inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins. Þar eru frumvörp sem m.a. tengjast ábyrgð hýsingaraðila, gagnageymd, ærumeiðingum, stjórnsýslulögum hvað varðar þagnarskyldu og tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna.

Í síðari hluta verkefnisins, sem var skilgreint strax þegar hópurinn var skipaður, er annars vegar endurskoðun upplýsingalaganna og hins vegar að skoða sérstaklega lögin um lögbann. Einhvern tímann höfum við hv. þingmaður áður rætt þetta mál í þingsal og það er mín skoðun að lögunum þurfi að breyta, að eðlilegt sé að lögbann fari beint til dómstóla, það sé hin eðlilega leið fremur en til sýslumanns og þaðan til dómstóla eins og við höfum séð gerast. Það hefur verið mín skoðun og mitt mat á þeim málum. Hins vegar hef ég óskað eftir því að hópurinn, undir forystu Eiríks Jónssonar, prófessors við Háskóla Íslands, skili frumvarpi. Þetta er samráðsnefnd nokkurra ráðuneyta; dómsmálaráðuneytis sem fer með þessi lög, menntamálaráðuneytis sem fer með málefni fjölmiðla og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis sem fer m.a. með málefni netöryggis. Ég á von á frumvarpsdrögum frá þeim hópi hvað varðar þau mál núna á vormisseri. Hin frumvörpin eru á þingmálaskrá miðuð við desember og þess vegna fagna ég því mjög ef þau fara núna í opið samráð um miðjan mánuðinn þannig að (Forseti hringir.) færi muni gefast á að hafa áhrif á efni þeirra.