149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

lögbann á Stundina.

[13:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst verð ég að leiðrétta eitthvað sem ég skrifaði rangt í glósur mínar. Það voru auðvitað kosningarnar 2017 en ekki 2016.

Ég fagna svari hæstv. forsætisráðherra og þakka fyrir viðleitnina. Ég vil þó árétta að við höfum dregist aftur úr og hætt er við því að þegar vinnan tekur svona langan tíma og þegar mál af þessu tagi tefjast svona lengi — og nú er ég ekki að álasa neinum, ég veit að einhverjar ríkisstjórnir hafa setið síðan þetta var samþykkt — er hætt við að þegar við loksins tökum upp boltann sem við höfum misst drögumst við enn aftur úr vegna þess að það er orðið þó nokkuð síðan þessi tillaga var samþykkt.

Málefni er varða tjáningarfrelsi breytast, ekkert voðalega hratt en þau breytast með tímanum vegna upplýsingatækni og vegna þess að ný atriði koma stöðugt fram sem búa til nýjar áskoranir. Téð lögbann er t.d. nokkuð sem ég hefði haldið (Forseti hringir.) að væri óhugsandi áður en það átti sér stað. En það er nú þannig með margt að það er óhugsandi þar til það verður hugsanlegt og raungerist í kjölfarið.

Ég fagna svari hæstv. forsætisráðherra og hvet hann til dáða í málaflokknum.