149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

lögbann á Stundina.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Ég vil þó segja að ég lít á þetta sem töluvert meira en viðleitni, ég lít á það sem aðgerðir. Ég vil rifja upp, af því að hv. þingmaður rifjar upp ágæta tillögu fyrrverandi hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að áhrifa hennar gætti um leið í því frumvarpi sem seinna varð að lögum um fjölmiðla árið 2011. Þar voru sett inn nokkur atriði sem áttu rætur að rekja beint í þá tillögu og vörðuðu m.a. sjálfstæða ritstjórnarstefnu og vernd blaðamanna þannig að þá þegar skilaði sú tillaga sér að einhverju leyti inn í lögin.

Það er hins vegar mikilvægt að fara á nýjan leik yfir fjölmiðlalögin á næstu misserum, m.a. út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður lýsir.

Ég ítreka að þessi fimm mál verða kynnt og sett í opið samráð í október. Þau eru á þingmálaskrá í desember. Nefndin hefur staðist alla tímafresti og ég vonast því til þess að m.a. frumvarp um lögbann og endurskoðun upplýsingalaga og vernd uppljóstrara komi fram á vorþingi. Þá ættum við að sjá verulegar framfarir í öllum þeim málum er lúta að tjáningar- og upplýsingafrelsi sem er ekki síður áhugamál mitt en hv. þingmanns. (Forseti hringir.) Ég held að mjög mikilvægt sé að við náum góðri samstöðu á þinginu um að gera betur í þeim málum. Ég tek undir með hv. þingmanni að við höfum öll efni til að standa framarlega á því sviði.