149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

málefni fatlaðra barna.

[14:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina erindi mínu til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra en það varðar málefni fatlaðra barna. Um helgina lauk aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands og þar komu málefni fatlaðra barna sérstaklega til umræðu. Ég ætla að vísa í greinargerð og ályktun þaðan:

Mikill misbrestur hefur verið á því að heilbrigði og velferð og menntakerfi vinni saman. Ítrekað falla börn milli kerfa. Lítil sem engin úrræði standa þeim til boða. Þessu verður að breyta. Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að tryggja samfellda þjónustu við börn og samvinnu milli þeirra kerfa sem snúa að velferð barna.

Mörg börn flosna upp úr íþróttum og tómstundaúrræðum, sérstaklega þegar þau eldast. Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga hefur verið af skornum skammti og erfitt er að nálgast þá þjónustu. Sálfræðiþjónusta á heilsugæslunum hefur verið aukin en betur má ef duga skal. Ljóst er að ekki er unnt að mæta þörfum allra barna en til þess eru biðlistar í sérstök úrræði of langir.

Öryrkjabandalag Íslands skorar á stjórnvöld að hlutast til um að sálfræðiþjónusta verði hluti af hinu almenna heilbrigðiskerfi til að þörfum efnaminni fjölskyldna sé mætt. Ítrekað verður mikilvægi þess að snemmtæk íhlutun verði höfð að leiðarljósi í öllum þeim úrræðum sem snúa að börnum.

Ég vil sérstaklega benda á að það eru engin úrræði, og hefur ekkert verið í umræðunni, sem snerta börn fatlaðra foreldra. Það þarf líka að taka inn í dæmið. Ég tók eftir því að þarna voru áhyggjufullir foreldrar sem eru fatlaðir, eru með heilbrigð börn sem þurfa þá að bera þyngri byrðar en eðlilegt er að þessi börn eigi að þurfa að gera.

Ég vil spyrja ráðherra: Hvað er hann að gera og hvað vill hann gera? Þarna þarf að bregðast við vegna þess að um er að ræða börn sem standa mjög illa.