149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

brotastarfsemi á vinnumarkaði.

[14:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra en hún snýr að aðgerðum gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.

Sú umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarna daga sýnir hið grafalvarlega vandamál sem við er að etja. Þetta er ekki nýtt vandamál, þetta hefur verið þekkt um árabil hér á vinnumarkaði. Auðvitað er sú brotastarfsemi sem þarna var lýst ekkert annað en skipulögð brotastarfsemi. Því miður virðist sá vandi oft vera uppi að það er alveg sama til hvaða lagasetninga er gripið eða sektarheimilda því að um einbeittan brotavilja viðkomandi einstaklinga er að ræða. Þess vegna reiðum við okkur mjög á eftirlit með starfsemi þeirra sömu aðila.

Ráðherra hefur nú kynnt áform sín um stofnun starfshóps til að sporna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Það er reyndar áhugavert að fylgjast með ríkisstjórninni því að hún virðist vera sérstakur áhugamaður um stofnun starfshópa um ótrúlegan fjölda málefna, stofnar jafnvel starfshópa til að skoða fyrri starfshópa.

Hér er aðgerða þörf. Ég held að við þurfum í sjálfu sér ekki að verja miklum tíma í að átta okkur á því að brýnna aðgerða er þörf og sér í lagi er snýr að því að samræma og styrkja eftirlit hins opinbera. Þar þarf kannski ekki langa skýrslugerð, ég held að þau álitaefni sem þar hafa verið uppi séu vel þekkt. Það var t.d. ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar að auka fjármagn til Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar til að styrkja eftirlitsþáttinn og er ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því að það hafi skilað sér í aukinni tíðni eftirlitsheimsókna sem er kjarni máls til að koma upp um þá brotastarfsemi sem hér er lýst.

Það er líka áhugavert að fylgjast með muninum. Við sáum fréttaflutning í dag þess efnis að níu starfsmenn hefðu verið grunaðir um svik með því að framvísa fölsuðum skilríkjum. Þeir voru handteknir „med det samme“, en á sama tíma líðum við skipulega brotastarfsemi atvinnurekenda gegn starfsfólki sínu (Forseti hringir.) án sýnilegra aðgerða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðherra gera nú þegar til að styrkja það eftirlit sem haft er með þessari starfsemi?