149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

brotastarfsemi á vinnumarkaði.

[14:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að ekki þurfi að bíða eftir niðurstöðu starfshóps til þess að fela viðkomandi eftirlitsaðilum að fara sameiginlega í eftirlitsferðir. Það er það sem kallað hefur verið eftir árum saman en tregða hefur verið til þess innan opinbera kerfisins og þar held ég að sé þá bara samstarf hæstv. ráðherra við hæstv. fjármálaráðherra, sem dæmi, og hæstv. atvinnuvegaráðherra sömuleiðis, um að samræma þetta eftirlit. Það leiðir hugann kannski að annarri spurningu: Er gert ráð fyrir einhverju fjármagni í fjárlögum næsta árs til að herða eða efla slíkt eftirlit? Ég finn þess ekki alveg stað.

En það er líka annað sem ég myndi vilja heyra hæstv. ráðherra fara aðeins út í. Hér er lýst þessu mikla valdamisvægi sem er milli atvinnurekenda og starfsfólks af erlendum uppruna sem þekkir illa rétt sinn. Brothættasti hópurinn þar er einmitt fólk utan EES-svæðisins og reisir í raun og veru atvinnuréttindi sín á vinnuveitanda sínum, ekki sjálfstæðum rétti, og þar sakna ég mjög stefnu þessarar ríkisstjórnar. Fyrri ríkisstjórn lagði t.d. mikla áherslu á einfalda veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk (Forseti hringir.) utan Evrópska efnahagssvæðisins og líka að viðurkenna réttindi og þekkingu þessa fólks en ég finn ekki nein merki í stjórnarsáttmála um að núverandi ríkisstjórn hafi einhvern metnað í þessum efnum. Það væri ágætt ef hæstv. ráðherra gæti aðeins frætt okkur um það.