149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

brotastarfsemi á vinnumarkaði.

[14:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Rétt eins og hv. þingmaður sagði hefur verið kallað eftir því árum saman að menn fari í samþættar aðgerðir. Kallað hefur verið eftir því alveg síðan hv. þingmaður var formaður SA og m.a. ráðherra þessa málaflokks (Gripið fram í.) — framkvæmdastjóri.

Þess vegna er ánægjulegt að við skulum vera að fara í þá vegferð að kalla alla að borðinu til að undirbúa það sem hv. þingmaður kallar eftir. Ég held að við ættum báðir að geta fagnað því að nákvæmlega það sé að gerast. Þetta er einmitt það sem fólst í tillögunni sem lögð var fyrir ríkisstjórnina fyrir þremur til fjórum vikum og var samþykkt þar samhljóða, en í henni sem sitja m.a. fjármálaráðherra, fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ráðherrar, og félagsmálaráðherra og allir samþykktu tillöguna.

Tillagan felur í sér að fara í samþættar aðgerðir. Ef það að menn tali saman leiðir til þess að sett sé fjármagn í þetta á það að sjálfsögðu að geta fylgt. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Við eigum að taka á og það er alveg sama hvort einstaklingarnir eru innan eða utan EES, bregðast þarf eins við slíku.