149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

laxeldi í sjókvíum.

[14:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Í umræddum málum sem þingmaðurinn kom inn á og fallið hafa úrskurðir um á síðustu vikum er í rauninni um að ræða tvenns konar löggjöf. Önnur snýr að því ráðuneyti sem ég stýri og hefur með starfsleyfin að gera líkt og fram kom.

Hvað varðar þá löggjöf sem heyrir undir mitt ráðuneyti, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, er þar kveðið á um að hægt sé að sækja um undanþágu frá starfsleyfi. Þetta er í rauninni úrræði sem m.a. úrskurðarnefndin benti á í úrskurði sínum sl. föstudag sem gæti mögulega komið til greina fyrir fyrirtækin að sækja um í þeirri stöðu sem upp er komin.

Ég vil gjarnan greina frá því að fundur var í gær hjá Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Matvælastofnun með framkvæmdaraðilunum þar sem farið var yfir stöðu mála og það er í rauninni hlutverk Umhverfisstofnunar að leiðbeina fyrirtækjunum um það hver geti verið næstu skref, ræða við þau um hvaða valkostir eru uppi.

Ég hef ekki fengið inn á borð til mín, það var a.m.k. ekki komið áðan, umsókn um undanþágu. Það er því erfitt að svara því til og auðvitað get ég ekki svarað því hvernig slíkt færi en bent hefur verið á að tíminn sem svona tæki gæti verið tvær til þrjár vikur eða eitthvað slíkt. Ég held að ég verði að svara um afstöðu mína og umgjörðina í svari mínu á eftir til hv. þingmanns.